Fjölmenni við tendrun Oslóartrés | Reykjavíkurborg

Fjölmenni við tendrun Oslóartrés

sunnudagur, 3. desember 2017

Fjölmenni var á Austurvelli í blíðskaparveðri í dag þegar ljósin voru tendruð á Oslóartrénu svokallaða.

 • Óslóartréð í ár er fallegt tólf metra grenitré úr Heiðmörk.
  Óslóartréð í ár er fallegt tólf metra grenitré úr Heiðmörk. Fjölmenni var á Austurvelli í dag þegar ljósin voru tendruð.
 • Dagur B. Eggertsson borgastjóri, Eirvor Evenrud, borgarfulltrúi í Osló og Sóley Dögg Gunnarsdóttir.
  Dagur B. Eggertsson borgastjóri, Eirvor Evenrud, borgarfulltrúi í Osló og Sóley Dögg Gunnarsdóttir, stúlka af norsk-íslenskum ættum sem aðstoðaði Dag við að telja niður þegar kveikt var á ljósum Oslóartrésins.
 • Fjölmenni var við hátíðahöldin á Austurvelli.
  Fjölmenni var við hátíðahöldin á Austurvelli, en blíðskaparveður var þótt lágskýjað væri.
 • Þessar snúllur biðu spenntar eftir jólasveinunum.
  Þessar snúllur biðu spenntar eftir jólasveinunum.
 • Jafnt ungir sem aldnir mættu á Austurvöll til að fylgjast með hátíðahöldunum þegar kveikt var á ljósum Oslóartrésins.
  Jafnt ungir sem aldnir mættu á Austurvöll til að fylgjast með hátíðahöldunum þegar kveikt var á ljósum Oslóartrésins.
 • Jólasveinar einn og átt voru komnir til að telja börnin í borginni.
  Jólasveinar einn og átt voru komnir til að telja börnin í borginni. Í raun voru þeir að stelast í bæinn.

Það var mikið um dýrðir á Austurvelli í dag, fyrsta sunnudag í aðventu, þegar ljós Oslóartrésins voru tendruð við hátíðlega athöfn. Gerður G. Bjarklind var kynnir á hátíðinni í sautjánda sinn. Eivor Evenrud borgarfulltrúi í Osló ávarpaði samkomuna og minntist m.a. á frábæran árangur Íslands í knattspyrnu. Núna kemur tréð ekki lengur frá Noregi heldur er það fellt í skóglendi borgarinnar í Heiðmörk. Í staðinn talsetja Oslóarbúar kvikmynd fyrir börn sem sýnd er á aðventunni. Í ár varð kvikmyndin Doktor Proktor og prumpuduftið sem byggð er á sögu Jo Nesbø fyrir valinu og verður hún sýnd í Ráðhúsi Reykjavíkur í Tjarnarsalnum.   Myndin var sýnd í fyrsta sinn í dag kl. 13:30 og hélt Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, ávarp við það tilefni. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kveikti síðan á ljósum trésins og naut við það dyggrar aðstoðar Sóleyjar Daggar Gunnarsdóttur sem er af norsk-íslenskum ættum. Sigurður Guðmundsson og Sigríður Thorlacius sungu jólalög ásamt hljómsveit og svo stálust tveir jólasveinar í bæinn - að eigin sögn til að telja börnin í borginni svo þeir viti hvað þeir eiga að gefa margar gjafir í skóinn fyrir jólin.

Veður var stillt, lágskýjað, um fimm gráðu hiti en snóinn vantaði að þessu sinni.