Fjölbreyttari ferðamátar í Reykjavík

Samgöngur Umhverfi

""

Borgarstjórn samþykkti í dag tillögu sem miðar að því að ýta undir fjöbreyttan ferðamáta, sem allir eiga það sameiginlegt að vera einstaklingmiðaðir en eiga um leið að auðvelda fólki að komast leiðar sinnar öðruvísi en á eigin bíl.

Mikil þróun er framundan í deilisamgöngum og þykir eðlilegt að borgin sé opin fyrir ýmsum valkostum þegar kemur að því að finna leiðir til að draga úr umferð einkabíla. Samþykkt var að fara í þrenns konar aðgerðir:

 Afnám á hámarkfjölda umhverfisvænna leigubíla.

Lagt er til að borgin móti sér þá stefnu að þak á hámarksfjölda leigubifreiða á höfuðborgarsvæðinu, sem í dag er 580, verði afnumið þegar kemur að umhverfisvænum bifreiðum, þ.e.a.s. bifreiðum sem ekki notast við jarðefnaeldsneyti. Umleið er hvatt til að tækifærið sé nýtt til að hvetja til orkuskipta leigubílaflotans þannig að hámarkið gildi ekki fyrir rafmagnsbifreiðar. Reykjavíkurborg skorar á ráðherra að fella burt takmarkanir á hámarksfjölda umhverfisvænna leigubíla á höfuðborgarsvæðinu.

Stefna um hjólaleigur og leigur á minni rafknúnum farartækjum

Mikil gróska er í mörgum borgum heims í málaflokki léttra rafvæddra samgöngutækja eða svokölluðum “micro-mobility” lausnum. Þar er um að ræða skammtímaleigur á reiðhjólum eða minni, oftast rafknúnum, farartækjum, á borð við rafhjól, skutlur og jafnvel minni bifreiðar. Þessar lausnir geta ýmist verið tengdar tilteknum stöðvum, það er að segja að skila þurfi farartækinu á tiltekinn stað eða „stöðvarlausnir“ þannig að notendur leggi farartækjunum  einfaldlega á leiðarenda. Hvor leið fyrir sig hefur sína kosti og galla en nauðsynlegt er að setja reglur um slíka starfsemi.  Þar mætti til dæmis ávarpa eftirtalin atriði:

● Hvar og hvernig megi leggja farartækjunum.

● Tengiliði innan hvers fyrirtækis sem borgin eða almenningur eigi að hafa samband við

ef farartæki veldur truflun.

● Eðlilegan viðbragðstíma vegna ábendinga.

● Hugsanlegt gjald fyrir hvert farartæki.

Umhverfis- og skipulagssviði er falið að fylgjast með þróun mála og gera, eftir þörfum, tillögur að reglum fyrir slíka starfsemi til að tryggja gæði og stýringu.

Fjölgun visthæfra deilibílaeiga

Í Reykjavík er þegar starfandi a.m.k. eitt fyrirtæki sem býður upp á deilibílaþjónustu, þar sem fólk getur leigt bíl til skemmri tíma og ekið sjálft. Þó er ljóst að talsvert betur þurfi að gera til að aðgangur að slíkri þjónustu hafi sannarlega áhrif á fjölda einkabíla. Að auki ætti að gera meira til að hvetja til þess að deilibílar gangi ekki fyrir jarðefnaeldsneyti. Skipulags- og samgönguráði er falið að uppfæra reglur um bílastæðafríðindi visthæfra deilibíla til að styðja við notkun þeirra.