Fjárhagsáætlun samþykkt í borgarstjórn

Fjármál Stjórnsýsla

""

Gjaldfrjáls námsgögn, lengdur opnunartími sundlauga og fallturn í Fjölskyldugarðinn meðal þess sem samþykkt var milli umræðna.  

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 og fimm ára áætlun til 2022 var samþykkt á fundi borgarstjórnar seint í gærkvöld. Í samþykktum breytingartillögum milli umræðna eru gjaldfrjáls námsgögn í grunnskólum næsta haust, lengdur opnunartími sundlauga, nýr fallturn í Fjölskyldugarðinn, umfangsmikil kaup á tölvubúnaði fyrir grunnskólana bæði fyrir kennara og nemendur, aukin framlög til þriggja þyngstu búsetukjarnanna fyrir fatlað fólk og stóraukinn stuðningur við búsetuúrræði utangarðsfólks.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir rekstur borgarsjóðs sterkan, gjöldin séu í lágmarki, þjónusta við íbúa verði sífellt betri og sókn sé hafin á öllum sviðum.

„Við erum að bæta töluvert í milli umræðna, bæði til stórra og smárra verkefna. Hryggjarstykkinu í áætluninni má eftir sem áður skipta í þrjá þætti: Í fyrsta lagi sókn í skólamálum og velferðarmálum, í öðru lagi innviðafjárfestingar fyrir 18 milljarða, með sérstaka áherslu á götur, stíga og íþróttamannvirki auk leikskólans, grunnskólans, sundlaugarinnar og menningarmiðstöðvarinnar í Úlfarsárdal. Í þriðja lagi heldur sókn okkar í húsnæðismálum áfram en alls fara 69 milljarðar til húsnæðismála á næstu fimm árum í Reykjavík. Við þetta má bæta að við erum að lækka fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði um 10 prósent ásamt sérstökum afsláttum fyrir aldraða og öryrkja,” segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2018 og fimm ára áætlun

Breytingatillögur meirihlutans við fjárhagsáætlun 2018

Breytingatillögur meirihlutans við fimm ára áætlun

Viðaukar við fjárhagsáætlun 1

Viðauki íbúðir

Viðauki fjárfestingar