Fjallað um þjónustu við börn og fjölskyldur

Velferð

""

Velferðarráð hélt opinn fund um þjónustu við börn og fjölskyldur í Reykjavík í morgun. Mörg stutt  og fróðleg erindi voru haldinn fyrir troðfullu húsi í Bólstaðarhlíð 43.

Markmið fundarins var að miðla fróðleik um hluta þeirrar mikilvægu þjónustu og stuðning sem Reykjavíkurborg veitir í gegnum ýmis úrræði. Yfirskrift fundarins var:  Hvernig tryggjum við framúrskarandi þjónustu við börn með tilfinningalegan og eða félagslegan vanda og fjölskyldur þeirra? 

Fundurinn var afar vel sóttur. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, hélt stutt erindi og bauð gesti velkomna. Þá fjallaði Regína Ásvaldsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs um hugmyndir um þróun þjónustunnar.

Merkilegar reynslusögur 

Þá komu þrjú stutt erindi frá fólki sem hefur reynslu af úrræðum á vegum velferðarþjónustunnar í borginni.

Þórhildur Vígdögg Kristínardóttir fjallaði um tíma sinn í Unglingasmiðju sem að hennar sögn hjálpaði henni mikið í gegnum mjög erfiðan tíma. Hún kvaðst vera ákaflega þakklát fyrir stuðninginn sem hún fékk og úrræðið hefði opnað marga möguleika fyrir hana.

Vilhjálmur Eiríksson faðir ungs drengs fjallaði um PMT námskeið út frá sinni reynslu. Hann lýsti því hvernig námskeiðið hefði algjörlega breytt heimilislífinu til hins betra og að sonur þeirra hefði fengið mikinn stuðning í framhaldinu.

Anna M. Hlíðdal fjallaði um Morgunhanaverkefnið sem er stuðningur inn á heimili. Hún sagði að stuðningurinn væri afar mikilvægur og gæti skipt sköpum við að koma fólki til aðstoðar. Morgunhanaverkefnið felst í því að fólk er aðstoðað við að vakna og koma sér inn í daginn. Anna sagði að þessi samvinna velferðarþjónustunnar og fjölskyldna hefði hjálpað mörgum.

Heiða Björg Hilmisdóttir þakkaði þessum þremur einstaklingum fyrir frábærar reynslusögur.

Frábært stuðningskerfi

Guðrún Kaldal framkvæmdastjóri Tjarnarinnar frístundamiðstöðvar fjallaði um samstarf á milli fagsviða þeirra sem koma að störfum með börnum og lýst því hvernig hægt væri að veita börnum og unglingum margvíslegan stuðning í gegnum opið starf frístundamiðstöðvanna. Guðrún sagði stuðningskerfið væri frábært. Þá væri til skoðunar að setja á fót verkefni þar sem börn hefðu persónulega frístundaráðgjafa. Hún sagði ennfremur að nú væru vísbendingar um að velferðarþjónustan og frístundafólk þyrfti að halda sér við efnið og ekki sofna á verðinum.

Því hefði verið ákveðið að efla leitar og götustarf og búið væri að mynda frábært teymi með fólki frá öllum félagsmiðstöðvum  sem færi um Miðborgina í merktum grænum vestum. Í því fælist öryggi fyrir bæði eldri og yngri ungmenni. 

Hjólakraftur og klókir krakkar

Lára Baldursdóttir sagði hvað væri að gerast í Breiðholti. Þar væri verkefnið Hjólakraftur á fullu sem snúist um að styrkja sjálfsmynd, félagsfærni og efla heilsuna. Þátttakendur hittast í Gerðubergi tala saman og fara út að hjóla saman.  Einstaklingum er mætt á þeirra forsendum. Hjólað upp í 20 km og ef þau ættu ekki hjól væri því bara reddað. Verkefnið væri mjög vel heppnað og þátttaka góð. 

Íris Ósk Ólafsdóttir sagði frá námskeiðinu Klókir Krakkar sem er haldið á öllum þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar fyrir börn með kvíða og foreldra þeirra. Námskeiðið byggir á hugrænni atferlismeðferð. Reynt er að draga úr öfgafullum hugsundum og aðferðir kenndar til að takast á við kvíðaraskanir. Foreldrarnir læra líka aðferðir til að stjórna kvíða.

Lagði til krakkasmiðjur

Ingibjörg Karlsdóttir félagsráðgjafi hjá BUGL fjallaði um PEERS félagsfærniþjálfun. Hún stakk upp á því að auk Unglingsmiðjanna yrðu einnig stofnaðar Krakkasmiðjur fyrir börn á aldrinum 9 – 12 ára. Þá lagði hún til að PEERS félagsfærniþjálfun yrði fléttuð inn í starfsemi unglingasmiðjanna. Ingibjörg sagði að félagsleg einangrun færi mjög illa með börn og gæti leitt til alls konar vandamála, m.a. fíknivanda og sjálfsvígstilrauna. PEERS væri mjög árangursrík leið til að takast á við félagsleg vandamál, höfnun og stríðni. Unnið væri með foreldrum og börnunum kennt að svara fyrir sig og þannig væri námskeiðið sjálfseflandi.

Næsta Velferðarkaffi, en svo nefnast opnir morgunverðarfundir velferðarráðs, verður haldið eftir áramót.