Fiskur og fólk

Menning og listir

""

Sjóminjasafnið í Reykjavík var enduropnað helgina 9.-10. júní með tveimur glænýjum sýningum undir heitinu Fiskur og fólk, sjósókn í 150 ár og Melckmeyt 1659. Gestum voru boðnir velkomnir, og ókeypis aðgangur þessa fyrstu helgi í tilefni af enduropnuninni.

Grunnsýningin er Fiskur & fólk, sjósókn í 150 ár en einnig er sýningin Melckmeyt 1659 sem fjallar um fornleifarannsókn neðansjávar á hollensku kaupskipi sem fórst við Flatey á 17. öld.

Sýningin Fiskur & fólk: sjósókn í 150 ár á Sjóminjasafninu í Reykjavík fjallar um sögu fiskveiða á Íslandi, frá því árabátarnir viku fyrir stórskipaútgerð á síðustu áratugum 19. aldar og allt fram yfir aldamótin 2000. Sagan er sögð frá sjónarhóli stærsta útgerðarbæjar landsins, Reykjavíkur, og sett fram á lifandi hátt með gripum og textum, myndum og leikjum.

Gildi fisks fyrir afkomu Íslendinga verður seint ofmetið. Fiskur hefur verið mikilvægur hluti af íslensku mataræði um aldir, sem og ein verðmætasta útflutningsvara þjóðarinnar. Sýningin Fiskur & fólk er byggð kringum aðalpersónu þessarar sögu: Fiskinn sjálfan. Honum er fylgt eftir úr hafinu í netið, um borð í bátinn og að landi, í gegnum vinnslu – og loks á diskinn.

Umgjörð sýningarinnar á Sjóminjasafninu við Grandagarð er viðeigandi, því safnhúsið hýsti áður blómlega fiskvinnslu. Sýningin er bæði fræðandi og skemmtileg og höfðar jafnt til þeirra sem þekkja vel til sjósóknar og sögu hennar og þeirra sem aldrei hafa á sjó komið.

Milckmeyt 1659 ný sýning í vélasal Sjóminjasafnsins í Reykjavík

Á kaldri októbernóttu árið 1659 lá hollenska kaupskipið Melckmeyt fulllestað við akkeri og beið heimfarar til Amsterdam þegar ægilegur stormur skall á. Í tvo daga börðust áhafnarmeðlimirnir fimmtán við að bjarga skipinu frá strandi. Baráttan bar ekki árangur, skipið strandaði og einn maður fórst. Skipverjar voru fastir á örlítilli eyju, hundruð kílómetra frá heimkynnum sínum. Samkvæmt annálum höfðu áhafnarmeðlimir vetursetu í Flatey eftir að skip þeirra sökk.

Meira en 300 árum síðar, árið 1992, fundu kafarar flak skipsins. Árið eftir var í fyrsta sinn framkvæmd víðtæk rannsókn á fornminjum neðansjávar við Ísland á vegum Þjóðminjasafns Íslands. Sérfræðingar köfuðu aftur niður að flakinu árið 2016, undir handleiðslu Kevins Martins doktorsnema í fornleifafræði og grófu upp enn stærri hluta flaksins.

Á sýningunni fá gestir innsýn í rannsóknaraðferðir fornleifafræðinnar og fjallað verður um valda þætti úr sögu skipsins, áhafnar og verslunar á 17. öld. Einnig getur að líta nokkra þeirra gripa sem fundust við rannsóknina.

Sjóminjasafnið í Reykjavík verður opið alla daga frá 9. júní frá kl. 10-17.

Auglýsing, Fiskur og fólk