Firestarter - hraðall fyrir tónlistarfrumkvöðla

Menning og listir Mannlíf

Kona leikur á selló í miðborginni

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í nýjan viðskiptahraðal sem ætlað er að auka verðmætasköpun í íslensku tónlistarumhverfi.

Allt að sjö verkefni verða valin til þátttöku í verkefninu sem hefst í október n.k. og fá þau aðgang að fullbúinni vinnuaðstöðu, ráðgjöf og leiðsögn frá fjölmörgum sérfræðingum, fjárfestum og reyndum frumkvöðlum þeim að kostnaðarlausu yfir fjögurra vikna tímabil. Að verkefninu standa Tónlistarborgin Reykjavík, ÚTÓN og  Icelandic Startups með stuðningi Senu Live, Samtóns og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytissins.

Hraðallinn sem hlotið hefur heitið Firestarter, Reykjavik Music Accelerator, miðar að því að rækta tónlistarfrumkvöðla, styrkja umgjörð viðskipta og efla tengsl tónlistar við umhverfi nýsköpunar og tækni. Óskað er eftir umsóknum sem snúa að nýjum hugmyndum og verkefnum á sviði tónlistar og tæknilausna.

María Rut Reynisdóttir, verkefnastjóri Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur segir að hraðallinn muni styðja við umgjörðina utan um tónlistariðnaðinn, sem ekki hafi verið gert á Íslandi áður. „Við eigum sterka tónlistarsenu en lítinn iðnað og þar er virkilega möguleiki fyrir vöxt. Ég tel að yngri kynslóðir séu töluvert opnari fyrir tækifærum tengdum viðskiptahlið tónlistariðnaðarins".

Firestarter hefst í október 2019 og stendur yfir í fjórar vikur. Allt að sjö verkefni verða valin til þátttöku og fá aðgang að sameiginlegu vinnurými, fræðslu, ráðgjöf og leiðsögn reyndra frumkvöðla, fjárfesta og annarra sérfræðinga. Hraðlinum lýkur í nóvember á Iceland Airwaves með kynningum fyrirtækjanna á hugmyndum sínum fyrir fjárfestum, völdum ráðstefnugestum og öðrum lykilaðilum á sviði tónlistar.

Opið er fyrir umsóknir í Firestarter til og með 30. ágúst n.k. á vefsíðu verkefnisins firestarter.is.

Framkvæmd verkefnisins er í höndum Icelandic Startups sem hefur m.a. umsjón með viðskiptahraðlinum Startup Reykjavik og frumkvöðlakeppninni Gullegginu.