Fellið, Dalheimar, Bústaðir og Senter verðlaunuð fyrir frístundastarf

Hvatningaverðlaun í frístundastarfi

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur veitti hvatningarverðlaun fyrir frístundastarf í tíunda sinn, á uppskeruhátíðinni Höfuð í bleyti í Hinu Húsinu í morgun. Suðurmiðstöð fékk viðurkenningu fyrir samstarfsverkefnið Senter sem felur í sér skjót viðbrögð við áhættuhegðun og hegðunarvanda unglinga.

Fréttapiltar í Grafarholti og Úlfarsárdal

Félagsmiðstöðin Fellið var verðlaunað fyrir verkefnið Fréttapiltar sem var í umsjón Hjörleifs Steins Þórissonar. Verkefnið var unnið í samstarfi  við grunnskólana þrjá í Grafarholti og Úlfarsárdal. Drengirnir sem tóku þátt í verkefninu kynntu sér vinnu í fjölmiðlum og fengu æfingu í fjölmiðlalæsi, ritun frétta og pistla, myndbandagerð, hlaðvarpsgerð og hlutverki samfélagsmiðla. Verkefnið reyndist valdeflandi og efldi sköpunargáfu sem kom bersýnilega í ljós í efninu sem þeir gáfu út.

Opnara samtal um kynlíf og mörk

Félagsmiðstöðin Bústaðir var verðlaunað fyrir verkefnið Kyn- og ofbeldisfræðsla í félagsmiðstöðvum, fræði og fagstarf. Með umsjón fóru þær Bára Bjarnadóttir og Margrét Stella Kaldalóns. Verkefnið gengur út á að fá unglingana til að temja sér gagnrýna hugsun um samfélagið og hvetja þá til að setja mörk og virða mörk annarra. Unglingarnir voru hvattir til virkrar þátttöku. Viðbrögð og þátttaka fór fram úr öllum vonum og aðstandendur telja að það hafi leitt til opnara samtals um kynlíf, mörk og allt sem því fylgir.

Læsi á ýmsum sviðum

Frístundaheimilið Dalheimar var verðlaunað fyrir verkefnið Frístundalæsi í umsjón Lilju Mörtu Jökulsdóttur. Tekin voru fyrir stafróf hinna ýmsu tungumála, sólkerfið og unnið var með miðlalæsi, vísindalæsi, samfélagslæsi, félagslæsi og lista- og menningarlæsi. Þá voru tækni og ýmsir miðlar nýttir til starfsins. Leiðin sem Dalheimar fór reyndist árangursrík til þess að innleiða og viðhalda aðferðum Frístundalæsis. Segir í umsögn dómnefndar að nýting Dalheima á stuðningi og hugmyndafræði Frístundalæsis er til fyrirmyndar og mikillar eftirbreytni fyrir önnur frístundaheimili.

Viðbragð við áhættuhegðun unglinga

Samstarfsverkefnið Senter hjá Suðurmiðstöð felur í sér samstarf og hröð viðbrögð allra þeirra sem koma að málefnum unglinga í Breiðholti. Senter gerir að verkum að hægt er að bregðast hratt við áhættuhegðun og hegðunarvanda unglinga. Þverfagleg samvinna lykilstofnanna í hverfinu var mynduð með teymi fulltrúa frá hverri og einni stofnun. Teymið gerir að verkum að viðbragð verður samræmt þvert á stofnanir og viðbragðsflýtir við bráðamálum einstakur. Í Senter er unnið markvisst að því að finna lausn sem er barninu fyrir bestu. Birgir Lúðvíksson, Margrét Edda Ingvarsdóttir og Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir höfðu umsjón með verkefninu.

Verðlaunin eiga að veita starfsfólki jákvæða hvatningu, viðhalda og stuðla að nýbreytni- og þróunarstarfi. Verðlaunin eru rós í hnappagat starfsins sem þau hlýtur, þau eru viðurkenning fyrir vel unnin verk í þágu barna og staðfesting þess að starfið sé fyrirmynd annarra á því sviði sem um ræðir.

Í dómnefnd sátu fulltrúar skóla- og frístundaráðs, fulltrúi fagskrifstofu frístundahluta, fulltrúi Félags fólks í frístundaþjónustu og fulltrúi frá samtökum foreldra. Alexandra Briem borgarfulltrúi veitti verðlaunin.