Fellafest í Fellagörðum laugardaginn 15. júní

Menning og listir

""

Laugardaginn 15. júní kl. 12:00-17:00 verður blásið til veislu í Fellagörðum í Breiðholti undir nafninu Fellafest. Áætlað er að halda viðburði af þessu tagi í hverjum mánuði í sumar. Meðal þess sem verður í boði er kynning á starfsemi Fellagarðshópsins sem sá um uppbyggingu á Hjartagarðinum í fyrra. Hópurinn hefur hreiðrað um sig í Eddufelli og ætlar að lífga upp á Breiðholtið í sumar. Opið hús verður hjá þeim á Fellafest og þau kalla eftir virkri þátttöku íbúa við að byggja upp svæðið.

Á svæðinu verður lifandi tónlist, hugmyndakassi, tiltektarátak verður í gangi, grill og myndlistarsýning. Allir sem hafa áhuga á uppbyggingu og fegrun Fellagarða fá þarna kjörið tækifæri til að taka þátt, koma með hugmyndir um hvað það vill sjá á svæðinu og hvað það getur sjálft gert til að bæta Fellahverfið.

Fellagarðshópurinn hvetur alla til þess að mæta á Fellafest!