FC Sækó í keppnisferð til Noregs

""

Íslenska landsliðið í geðveikum fótbolta, FC Sækó, er á leið í keppnisferð til Noregs í sumar og leitar nú eftir stuðningi til fararinnar.

FC Sækó eða „geðveikur fótbolti“ varð til í nóvember 2011 sem samstarfsverkefni Hlutverkaseturs, velferðarsviðs Reykjavíkur og geðsviðs Landspítalans en er  sjálfstætt starfandi íþróttafélag.

Tilgangurinn með stofnun félagsins var að auka virkni fólks með geðraskanir og gefa því tækifæri til að iðka knattspyrnu en einnig að draga úr fordómum. Knattspyrnuiðkunin á þó  fyrst og fremst að efla andlega og líkamlega heilsu fólks í gegnum áreynslu og skemmtun.

Landliðshópurinn samanstendur af  25-30 manns sem heldur til Bergen í Noregi og keppir við sambærilegt lið frá Bergen. Auk þess að spila landsleik við Norðmenn, það er lið Bergen í geðveikum fótbolta, mun liðið vera fimm daga í Noregi við leik og gleði.

Til að fjármagna ferðalagið þarf liðið að safna fyrir keppnisferðinni og býður FC Sækó fólki að taka þátt í léttum leik í fjáröflunarskyni. Í vinning er treyja árituð af leikmönnum draumaliðsins í íslenska landsliðinu í fótbolta, sjá mynd, en flestir liðsmanna leika með landsliðinu á HM í Rússlandi í sumar. 

Til að eiga von um treyjuna góðu þarf að styrkja Noregsferð FC Sækó og komast þannig í pottinn um árituðu landsliðstreyjuna. Hægt er að hringja í síma 901 7111, sem veitir þúsund króna styrk til ferðarinnar, 901 7113 veitir Sækó þrjú þúsund króna styrk og 901 7115 færir liðinu fimm þúsund krónur. Valin upphæð dregst af næsta símreikningi.

Einnig er  hægt að nota greiðslukort í gegnum örugga gátt hjá Borgun til að komast í pottinn.
Einn lukkunnar pamfíll verður dreginn úr pottinum þann 15. febrúar og fær þessa ómetanlegu minningu um landslið Íslendinga. Treyjan verður afhent á skrifstofu KSÍ eftir úrdrátt.

Meðlimir  FC Sækó hlakka mikið til ferðarinnar og eiga þá ósk heitasta að þeim takist að fjármagna ferðina með styrkjum frá velunnurum félagsins.  

Meira um geðveikan bolta á FB síðu FC Sækó og á heimasíðunni þeirra.