Fasteignagjöld 2019

Fjármál

""

Álagningar- og breytingarseðlar fasteignagjalda í Reykjavík 2019 verða birtir á vefsíðunni island.is og á Rafrænni Reykjavik á næstu dögum.

Álagningar- og breytingarseðlar eru ekki sendir í pósti í samræmi við breytingu sem gerð var á lögum nr. 4/1995 sem tók gildi 1. janúar 2019, en þá er sveitarstjórn heimilt að senda tilkynningu um álagningu fasteignaskatts rafrænt.

Fasteignagjöldin verða innheimt í gegnum netbanka þar sem jafnframt er hægt að prenta út greiðslu-seðil. Greiðsluseðlar verða ekki sendir út en hægt er að óska eftir heimsendum greiðsluseðlum á mínum síðum á www.reykjavik.is eða í gegnum þjónustuver Reykjavíkurborgar í síma 411 1111.

Fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar annast álagningu og innheimtu á fasteignaskatti, lóðaleigu og sorphirðugjaldi.

Fasteignagjöld ársins 2019, yfir 25.000 kr., greiðast með níu jöfnum greiðslum á gjalddögum 2. febrúar, 2. mars, 2. apríl, 4. maí, 1. júní, 2. júlí, 3. ágúst, 1. september og 2. október.

Gjalddagi fasteignagjalda undir 25.000 kr. er 2. febrúar.

Tekjulágir elli- og örorkulífeyrisþegar, sem fengu afslátt af fasteignaskatti og fráveitugjaldi sem greitt er til Orkuveitu Reykjavíkur á síðastliðnu ári, fá einnig að óbreyttu afslátt af fasteignaskatti og fráveitugjaldi fyrir árið 2019 að teknu tilliti til tekjuviðmiða. Fjármálaskrifstofa framkvæmir breytingar á fasteignaskatti og fráveitugjaldi eftir yfirferð skattframtala elli- og örorkulífeyrisþega. Það þarf því ekki að sækja sérstaklega um afslátt þessara gjalda. Við álagningu fasteignagjalda í janúar verður afsláttur elli- og örorkulífeyrisþega til bráðabirgða miðaður við tekjur ársins 2017. Þegar álagning vegna tekna ársins 2018 liggur fyrir í júní 2019, verður afslátturinn endanlega ákvarðaður og verða þá allar breytingar tilkynntar bréflega.

Skilyrði afsláttar eru að viðkomandi sé elli- eða örorkulífeyrisþegi, sé þinglýstur eigandi fasteignar, eigi þar lögheimili og geti átt rétt á vaxtabótum vegna hennar skv. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignaskatt.

Einungis er veittur afsláttur vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

Borgarráð hefur ákveðið að tekjumörk elli-og örorkulífeyrisþega vegna afsláttar fasteignaskatts og fráveitugjalds á árinu 2019 verði eftirfarandi:

100% afsláttur: Einstaklingur með tekjur allt að 4.090.000 kr.

A100               Samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 5.710.000 kr.

80% afsláttur:  Einstaklingur með tekjur á bilinu 4.090.000 til 4.690.000 kr.

A80                 Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 5.710.000 til 6.340.000 kr.

50% afsláttur:  Einstaklingur með tekjur á bilinu 4.690.000 til 5.450.000 kr.

A50                 Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 6.340.000 til 7.580.000 kr.

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, veitir allar upplýsingar varðandi álagningu og breytingar á gjaldi fyrir meðhöndlun úrgangs í síma 411 1111. Einnig má leita upplýsinga með tölvupósti á netfangið sorphirda@reykjavik.is.

Fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar, Höfðatorgi, Borgartúni 12-14, veitir upplýsingar varðandi álagningu fasteignaskatts og lóðarleigu og breytingar á þeim í síma 411 1111. Einnig má leita upplýsinga með tölvupósti á netfangið fasteignagjold@reykjavik.is.