Farteymi taki á málefnum nemenda með fjölþættan vanda | Reykjavíkurborg

Farteymi taki á málefnum nemenda með fjölþættan vanda

miðvikudagur, 10. janúar 2018

Starfshópur um skipulag úrræða fyrir grunnskólanemendur með fjölþættan vanda kynnti tillögur sínar á fundi skóla- og frístundaráðs í dag.

  • Lifað og lært í Brúarskóla
    Farteymi á að vinna með nemandanum inn í skólanum og í nærumhverfi hans.

Megintillaga hópsins er að  sett verði á laggir tvö farteymi í borginni vegna einstakra nemenda með alvarlegan fjölþættan vanda í grunnskólum borgarinnar. Farteymin eiga að þjóna öllum skólum í borginni, starfa innan skólanna, vinna með nemandanum og handleiða kennara og starfsfólk.

Slík farteymi byggja á sömu hugmynd og svokölluð MST- meðferð á vegum Barnaverndarstofu, en hún er fyrir fjölskyldur barna sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda á mörgum sviðum. MST-meðferð fer fram á heimili fjölskyldunnar og snýr að öllu nærumhverfi barnsins. Á sama hátt fer farteymi inn í skóla og vinnur með nemandanum í nærumhverfi hans.

Gert er ráð fyrir að í hverju farteymi starfi sérmenntaðir starfsmenn, s.s. sérkennarar, sálfræðingar, þroskaþjálfar, félagsráðgjafar eða aðrir fagaðilar. Fagráð mun fara með yfirstjórn farteymanna. 

Skóla- og frístundaráð samþykkti að vísa skýrslu starfshópsins og tillögum hans til umsagnar skólastjóra- og kennarafélaga í Reykjavík og skólaþjónustu velferðarsviðs.