Evrópskir gullverðlaunahafar í Höfða | Reykjavíkurborg

Evrópskir gullverðlaunahafar í Höfða

miðvikudagur, 31. október 2018

Það er ekki á hverjum degi sem haldin er móttaka í Höfða fyrir gullverðlaunahafa UEFA enda bara einu fótboltaliði tekist að hala inn gulli hjá Evrópska knattspyrnusambandinu og það er FC Sækó eða geðveikur fótbolti.

  • Verðlaunahafar ásamt stuðningsmönnum innan vallar og utan fyrir framan Höfða.
    Verðlaunahafar ásamt stuðningsmönnum innan vallar og utan fyrir framan Höfða.

Gullið fær liðið fyrir besta grasrótarstarfið að mati UEFA.com. Samtökin segja liðið ekki bara hafa sýnt fram á hversu mikilvæg líkamsrækt og hreyfing sé andlegri heilsu fólks, heldur auki félagið hróður fótboltans um allan heim og sýni að þessi fallega íþrótt sé svo sannarlega fyrir alla.

Í Höfða fögnuðu þeir sem tekið hafa þátt í geðveikum fótbolta hvort sem er með því að leika fótbolta eða styðja við boltann. Geðveikur fótbolti er samstarfsverkefni Reykjavikurborgar, Hlutverkaseturs og geðsviðs Landspítalans. Geðveikur fótbolti eykur ekki bara færni liðsmanna í boltanum heldur eykur líka færni liðsmanna í að ná tökum á tilverunni.

FC-Sækó hefur í ár hlotið verðskuldaða athygli og auk gullverðlaunanna er einn aðalhvatamaður boltans, Bergþór Grétar Böðvarsson, Reykvíkur ársins 2018.