Enn fleiri hjúkrunarrými í borginni | Reykjavíkurborg

Enn fleiri hjúkrunarrými í borginni

miðvikudagur, 25. apríl 2018

Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, boðar byggingu hjúkrunarheimila með 300 nýjum  hjúkrunarrýmum umfram það sem áætlanir segja til um á landinu öllu. Flest verða þessi hjúkrunarrými á Höfuðborgarsvæðinu. Þetta kom fram á sameiginlegum blaðamannafundi ráðherra og borgarstjóra í dag.

  • Dagur B. Eggertsson, Svandís Svavarsdóttir og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir.
    Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs Landspítalans, á blaðamannfundi í Höfða.

Samtals verður unnið að því að koma upp 790 hjúkrunarrýmum á næstu fimm árum,  annars vegar með endurbótum og hins vegar með nýjum rýmum.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri fagnaði áætlunum ráðherra og kynnti hugmyndir að mögulegum uppbyggingarsvæðum í borginni þar sem reikna má með 500 hjúkrunarrýmum. Hann sagði áætlanir uppi um venjuleg hjúkrunarrými, en einnig sérhæfð rými líkt og opnað var fyrir MND-sjúklinga á Droplaugarstöðum í vetur, svo og mögulega rými fyrir þá sem yngri eru en þurfa mikla hjúkrun.

Svæðin sem hægt er að byggja hjúkrunarheimili á eru víðs vegar um borgina;  Í Sóltúni, Álandi, Súðarvogi, Árskógum, Sóleyjarrima, Mosavegi og Úlfarsárdal svo eitthvað sé nefnt.  Þegar eru yfir 100 hjúkrunarrými í byggingu við Sléttuveg.

Kynning á uppbyggingu hjúkrunarrýma í dag er hluti að vinnufundum og samráði velferðarráðuneytis, Heilsugæslunnar, Landspítala og Reykjavíkurborgar um þjónustu við aldraða í Reykjavík, sem haldin eru í Höfða dagana 25. – 27. apríl.