Engin kona hefur verið formaður KSÍ eða forseti ÍSÍ

Íþróttir og útivist Mannlíf

""

Kynlegar tölur, samantekt sem unnin er af af Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar á hverju ári, er komin á vefinn. Í samantektinni má finna tölulegar upplýsingar sem ætlað er að varpa ljósi á ólíka stöðu kvenna og karla. Í ár er lögð áhersla á stöðu karla og kvenna í menningu og listum, íþróttum auk þess sem sjónum er beint að ofbeldi.

Karlar eru fleiri en konur í hópi erlendra ríkisborgara í Reykjavík eða 18.426 árið 2017 en konur 15.670. Konur af erlendum uppruna eru hins vegar í meirihluta erlends starfsfólks hjá Reykjavíkurborg miðað við tölur frá árinu 2018.

Frá árinu 1760 hafa 18 karlar gegnt stöðu Landlæknis og aðeins ein kona en hún var skipuð í embættið á þessu ári. Frá árinu 1912 hafa 7 karlar gegnt embætti forseta Íþróttasambands Íslands en ekki ein kona og sama á við um formennsku hjá Knattspyrnusambandi Íslands. Þar hafa 9 karlar gegnt embætti formanns frá stofnun sambandsins árið 1947.

Hjúkrunarfræðingar á Landspítala Háskólasjúkrahúsi eru 1.666 talsins og þar af eru 47 karlar en 1619 konur. Rétt undir helmingur lækna á Landspítala Háskólasjúkrahúsi eru konur en eingöngu 28.3% af yfirlæknum eru konur.  

Aðeins 26% listaverka í eigu Listasafns Reykjavíkur eru eftir konur og ekki ein kona stýrir útvarpsþætti á X‘inu 977 heldur eru þættirnir í umsjón 10 karla.

Af þeim 453 sem leituðu til Stígamóta árið 2017 voru konur 395 talsins en karlar 54. Árið 2017 leituðu 187 einstaklingar á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis og þar af voru 64 mál kærð til Lögreglu eða 34.2 %. Á tímabilinu 2000-2017 voru 28 karlar myrtir en 13 konur, 21 karl framdi morð á þessu tímabili og 6 konur.

Karlar eru í meirihluta þeirra sem fengið hafa stöðu flóttamanns á Íslandi og má þar nefna að á tímabilinu 2015-2016 fengu 84 karlar stöðu flóttamanns en eingöngu 20 konur.

Í hópi utangarðsfólks í Reykjavík árið 2017 voru karlar 238 en konur 108 talsins. Karlar voru einnig í miklum meirihluta þeirra sem nýttu sér nálaskiptaþjónustu Frú Ragnheiðar árið 2017, þangað leituðu 300 karlar en 100 konur.

Þessar og fleiri upplýsingar er að finna í Kynlegum tölum 2018 á vef Reykjavíkurborgar.