Ellefu daga kvikmyndaveisla á RIFF

Menning og listir

""

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, Reykjavík International Film Festival, RIFF, verður haldin dagana 26. september til 6. október. Reykjavíkurborg styrkir hátíðina.

Í ellefu daga á hverju hausti flykkjast ástríðufullir kvikmyndaunnendur í bíó til að sjá það besta og ferskasta í alþjóðlegri kvikmyndagerð sem RIFF býður upp á. Á RIFF býðst bíógestum einnig að spjalla við leikstjóra um verk sín, sækja málþing og fyrirlestra, fara á tónleika og listsýningar. Einnig er boðið upp á kvikmyndasýningar við óhefðbundin skilyrði – til að mynda í sundi, í strætó og á bókasöfnum.

Á RIFF verður hinn fjölhæfi og virti franski kvikmyndaleikstjóri Claire Denis heiðursgestur og hlýtur heiðursverðlaun hátíðarinnar fyrir framúrskarandi listræna sýn. Meðal þeirra sem hafa hlotið þá viðurkenningu undanfarin ár eru Mads Mikkelsen, Susanne Bier og Jim Jarmusch. Claire Denis hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir kvikmyndagerð sína og á RIFF verða til dæmis hin fræga High Life mynd hennar sýnd, auk Chocolat, Nénette and Boni og Let the sunshine in. Auk þess mun hún mæta í Norræna húsið þann 2. október klukkan 13:00 og spjalla við Auði Övu Ólafsdóttur, rithöfund. Síðan verða spurningar leyfðar úr sal.

Kvikmynd Elfars Aðalsteins, End of Sentence, verður opnunarmynd RIFF en hún verður frumsýnd 26. september. Kvikmyndin skartar virtum og reynslumiklum Hollywood leikurum, þeim John Hawkes, sem tilnefndur hefur verið til Óskarsverðlauna, og Logan Lerman, sem hefur leikið í fjölmörgum stórmyndum þrátt fyrir ungan aldur. Leikstjóri og aðalleikari verða viðstaddir frumsýningu myndarinnar og ræða gerð hennar að sýningu lokinni. 

Á hátíðinni eru margir magnaðir flokkar. Í flokknum Vitranir tefla níu nýir leikstjórar fram sinni fyrstu eða annarri mynd og keppa um aðalverðlaun hátíðarinnar, Gullna lundann. Í þessum flokki eru meðal annars myndir eins og Burning Kane eftir ungan afrísk-bandarískan leikstjóra sem hefur fengið afbragðsdóma fyrir mynd sína. The Lighthouse með Willem Dafoe í aðalhlutverki en hún sló í gegn á síðustu kvikmyndahátíð í Cannes. The Orphanage eftir Kötju Adomeit og að auki Síðasta haustið eftir Yrsu Roca Fannberg, en það er í annað sinn í 16 ára sögu RIFF að íslensk mynd kemst í keppnisflokkinn. 

Á hátíðinni verður sýndur fjöldinn allur af myndum um samfélags- og samtímamál. Flóttamannavandinn er tekinn fyrir í myndum eins og For Sama sem er tekin upp af arabískri konu í Aleppo í Sýrlandi í borgarastríðinu, Chaos sem gerð var af sýrlenskum flóttamanni búsettum í Vín í Austurríki og Midnight Traveller sem gerist í Afganistan.

Pólitíkin er allsráðandi í myndum eins og Push sem fjallar um hvernig fjármálaöfl misnota aðstöðu sína á markaðnum til að koma fólki út úr húsum sínum og hækka verð víða um heim. Mynd sem nú þegar hefur haft áhrif á stjórnmálamenn. The Cold Case of Hammarskjöld þar sem reynt er að leysa gátuna um hver myrti framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna árið 1961.

Þá verða hápólitískar myndir eins og Earth, Advocate, Una Primavera, One Child Nation og Gods of Molenbeek sýndar en allt eru þetta myndir sem hafa vakið gríðarlega athygli á þessu ári.

Á hátíðinni verður nýjum íslenskum myndum sýnd athygli og sérstaka athygli fá hryllingsmyndir. 

Í sundbíóinu þetta árið verður hin magnaða mynd The Host  sýnd en hún er Bong Joon Ho sem er nýjasta stjarna kvikmyndaheimsins. 

Lokamynd hátíðarinnar er einmitt Parasite eftir áðurnefndan Bong Joon Ho, en sú mynd vann aðalverðlaunin á Cannes hátíðinni í vor. 

Hátíðin er nú haldin í 16. sinn en Reykjavíkurborg hefur jafnan styrkt hana myndarlega.