Elín Hansdóttir myndlistarkona hlýtur viðurkenningar úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur | Reykjavíkurborg

Elín Hansdóttir myndlistarkona hlýtur viðurkenningar úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur

mánudagur, 9. október 2017

 Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, afhenti Elínu viðurkenninguna í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi í dag, ásamt því að opna sýningu á verkum Errós í safninu.  

  • Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, Elín Hansdóttir, myndlistarkona, Dagur B. Eggertsson, borgarstjó
    Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, Elín Hansdóttir, myndlistarkona, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Ari Trausti Guðmundsson, bróðir Errós. Ljósm.: Hildur Inga Björnsdóttir

Sjóðinn stofnaði Erró til minningar um móðursystur sína, Guðmundu, og er markmið hans að styrkja listakonur með því að veita framlag til viðurkenningar og eflingar á listsköpun þeirra. Viðurkenningunni fylgir peningaupphæð sem í ár er 750.000 kr.

Elín Hansdóttir er fædd árið 1980. Hún lauk myndlistarnámi við Listaháskóla Íslands árið 2003 og framhaldsnámi í Berlín árið 2006.

Elín hefur á stuttum og öflugum ferli fengist við flesta þá miðla sem listamenn samtímans vinna í. Skemmst er að minnast sýningarinnar UPPBROT í Ásmundarsafni Listasafns Reykjavíkur á síðasta ári en þar voru verk hennar sýnd ásamt skúlptúrum Ásmundar Sveinssonar. Skynjun mannsins og upplifun á umhverfinu er viðfangsefni hennar og segja má að hún heilli áhorfandann og rugli með blekkingum og sjónhverfingum.

Verk Elínar hafa verið sýnd á öllum helstu sýningarstöðum hérlendis og víða erlendis m.a. í Den Frie í Kaupmannahöfn, Higher Atlas á tvíæringnum í Marrakesh, Marokkó, Frieze Projects á Frieze listasýningunni í London og í KW samtímalistamiðstöðinni í Berlín. Á meðal þess sem Elín er að fást við þessa dagana eru sýningar á myndlistarhátíðinni Sequences sem nú stendur yfir í Reykjavík og einnig verður á næstu vikum málað verk eftir hana á vegg á húsnæði Réttarholtsskóla.

Þær myndlistarkonur sem áður hafa fengið viðurkenningu úr Listasjóði Guðmundu eru: Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Ósk Vilhjálmsdóttir, Ólöf Nordal, Finna Birna Steinsson, Katrín Sigurðardóttir, Gabríela Friðriksdóttir, Sara Björnsdóttir, Þóra Þórisdóttir, Guðrún Vera Hjartardóttir, Hekla Dögg Jónsdóttir, Hulda Stefánsdóttir, Margrét H. Blöndal, Sara Riel, Þórdís Aðalsteinsdóttir, Guðný Rós Ingimarsdóttir, Sirra Sigrún Sigurðardóttir og Hildigunnur Birgisdóttir.

Listasjóður Guðmundu er sjálfseignarstofnun í vörslu borgarsjóðs Reykjavíkur. Umsjón með sjóðnum hafa Reykjavíkurborg og Errósafn. Stjórn sjóðsins skipa safnstjórar Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands og Listasafnsins á Akureyri.

Reykjavíkurborg óskar Elínu Hansdóttur til hamingju með viðurkenninguna.