Eldri borgarar sáttir með lífið

Velferð

""

Íslenskir eldri borgarar eru upp til hópa sáttir með lífið og tilveruna samkvæmt könnun sem gerð var um hagi og líðan þeirra í lok árs 2016. Fleiri mælast þó einmana og fleiri vilja betra aðgengi að heilbrigðisþjónustu en áður hefur mælst

Hlúa þarf betur  að þeim sem eru við bága heilsu, hafa ekki stuðning maka og eru komnir hátt á tíræðisaldur. Könnunin náði til 1.800 manns 67 ára eða eldri um allt land.

Þetta er í fjórða skiptið sem slík könnun er gerð á högum eldri þegna landsins en sú fyrsta var gerð, 1999, þá 2006,  2012 og 2016. Meðal annars er spurt  um almennt heilbrigði, viðhorf til heilbrigðisþjónustu, alla aðstoð sem nýtt er,  félagslega virkni, tekjur og tengslanet. 

Niðurstöður sýna að 73% eldri borgara meta heilsufar sitt sem frekar eða mjög gott, og er það svipað og í fyrri könnunum.  Um 76% eldri borgara stunda einhverja líkamsrækt 1-2 sinnum í viku eða oftar en tengsl milli líkamsræktar og heilsufars eru sterk.

Fleiri eldri borgarar en áður telja heilbrigðisþjónustu hafa versnað sé miðað við fyrri mælingar. Almennt eru menn þó nokkuð sáttir við aðgengi að þjónustunni Athygli vekur að óánægja með heilbrigðisþjónustu er meiri eftir því sem heilsan er verri.

Þegar spurt var um lækna- og lyfjakostnað sagðist nær helmingur svarenda engin útgjöld hafa af læknaheimsóknum,  en meðalkostnaður þeirra sem kváðust þurfa að greiða fyrir  læknisheimsóknir var um 25 þúsund krónur, en lyfjakostnaður var að jafnaði lægri.

Flestir eldri borgarar búa í eigin húsnæði og þriðjungur býr einn. Þeir hafa bíl til umráða að áttræðu en eftir að þeim aldri náð fækkar talsvert í hópi eldri ökumanna. Nær sex af hverjum tíu  telja sig ekki þurfa aðstoð þegar spurt er um innkaup, matreiðslu og þrif . Flestir sem þiggja aðstoð eru á níræðisaldri og eru þá helst með þrif. Aðstoðina fær fólk frá sveitarfélaginu eða sínum nánustu. Makar aðstoða að jafnaði mest.

Skiptar skoðanir voru um hvort hækka bæri  lífeyrisaldur en nær öllum fannst að val ætti að vera um atvinnuþátttöku. Karlar vildu frekar stunda launaða vinnu á efri árum. Ráðstöfunartekjur voru að jafnaði 258 þúsund krónur á mánuði og konur voru með lægri tekjur en karlar. Meðalráðstöfunartekjur heimila eldri borgara voru 404 þúsund krónur á mánuði. Þeim fjölgar í hópi eldri borgara  sem hafa áhyggjur af fjárhagnum  en um þriðjungur taldi sig stundum eða oft hafa fjárhagsáhyggjur.

Vel yfir fjórðungur tekur þátt í félagsstarfi eldri borgara á vegum sveitarfélagsins Hópurinn sem upplifir einmanaleika hefur stækkað frá fyrri könnunum. Mun fleiri upplifa einmanaleika stundum eða oft í hópi þeirra sem eru ógiftir eða ekkjur/ekklar, búa einir, eru tekjulitlir eða hafa slæma heilsu. Um tveir af hverjum þremur kváðust aldrei einmana.

Fámennur hópur hafði upplifað vanrækslu á eftirlaunaaldrinum eða  11 einstaklingar sem sögðust hafa orðið  fyrir vanrækslu af hálfu skyldmenna, annarra umsjónaraðila, samfélagsins eða annarra.  Fjórir einstaklingar sögðust hafa verið  beittir líkamlegu ofbeldi, 31 höfðu orðið fyrir andlegu ofbeldi og 22 höfðu verið beittir fjárhagslegu ofbeldi. Hugsanlega eru þessar tölur hærri því það getur reynst erfitt fyrir fólk að viðurkenna að vera þolendur vanrækslu og ofbeldis.

Þá má geta þess að meirihluti  aðspurðra taldi  viðhorf til eldri borgara í samfélaginu vera jákvæð, eldri karlar nota frekar tölvur en konur og virkni eldri borgara á netinu hefur aukist frá árinu 2012. Yfir helmingur þeirra sem svöruðu könnunni eru á  Facebook og  skoða síðuna daglega.

Sjá könnunina í heild sinni