Eldhugar í umhverfismálum fá viðurkenningu | Reykjavíkurborg

Eldhugar í umhverfismálum fá viðurkenningu

þriðjudagur, 24. apríl 2018

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, heiðraði í dag nokkra eldhuga í umhverfismálum fyrir utan Ráðhús Reykjavíkur við Reykjavíkurtjörn. Öll hafa þau sýnt frumkvæði að öflugu hreinsunarátaki í borginni.

 • Einar Bárðarson f.h. Plokk á Íslandi, Björg Fríður Freyja, Svavar Hávarðsson, Atli Svavarsson og Örlygur Sigurjónsson.
  Einar Bárðarson f.h. Plokk á Íslandi, Björg Fríður Freyja, Svavar Hávarðsson, Atli Svavarsson og Örlygur Sigurjónsson eldhugar í umhverfismálum.
 • Fríður hópur plokkara.
  Fríður hópur plokkara ásamt Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra, við afhendingu viðurkenninga fyrir eldhuga í umhverfismálum.
 • Svavar Hávarðsson, Dagur B. Eggertsson og Atli Svavarsson.
  Svavar Hávarðsson, eldhugi, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Atli Svavarsson, kunnur eldhugi í umhverfismálum.
 • Árni Guðmundsson með dóttur sína Rósu Margréti og Einar Bárðarson.
  Árni Guðmundsson með dóttur sína Rósu Margréti og Einar Bárðarson, sem öll eru meðlimir í plokki á Íslandi.
 • Björg Fríður Freyja ásamt hundunum sínum tveimur Ösku og Kolu.
  Björg Fríður Freyja, eldhugi, ásamt Ösku og Kolu, sem slást í för með Björgu þegar hún plokkar.
 • Plokkarar gæða sér á plokkara.
  Plokkarar gæða sér á plokkara.
 • Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
  Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, plokkar við þyrnirunna.
 • Dagur B. Eggertsson og Sif Gunnarsdóttir.
  Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Sif Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri á menningar og ferðamálasviði, plokka saman við Tjörnina.

Plokk á Íslandi, feðgarnir Svavar Hávarðsson og Atli Svavarsson ásamt Örlygi Sigurjónssyni og Björgu Fríði Freyju tóku við viðurkenningum fyrir framlag sitt við hreinsun borgarinnar.  Þess má geta að Örlygur fékk viðurkenninguna bæði fyrir hreinsun á landi og láði en hann hreinsar rusl um leið og hann fer í kajak ferðir. Björg Fríður var meðal þeirra fyrstu til hvetja til og stofna plokkviðburði á samfélagsmiðlum.

Dagur sagði að frumkvæði eldhuganna væri smitandi og það væri stórkostlegt hversu mikil fjölgun hefði orðið á þeim sem tína upp rusl í borginni.

Nú stendur yfir evrópsk hreinsunarvika sem Reykjavíkurborg tekur þátt í undir yfirskriftinni Hreinsum saman, tökum þátt og tínum rusl. Borgarstjóri tók þátt í átakinu í dag ásamt starfsfólki Reykjavíkur og hirti upp rusl í nágrenni við Tjörnina.  

Hápunktur vikunnar er laugardaginn 28. apríl en þá geta borgarbúar skráð sig á valin almenningsrými og nágrenni til að tína rusl. Starfsfólk borgarinnar sækir pokana sjái fólk sér ekki fært að koma þeim sjálft til endurvinnslustöðva Sorpu.

Laugardaginn 28. apríl verða þrjár hverfastöðvar Reykjavíkurborgar opnar og skaffa áhugasömum plokkurum poka. Stöðvarnar eru á Njarðargötu, á Stórhöfða og í Jafnaseli. Einnig verða pallbílar á ferðinni. Upplýsingar eru veittar í síma 411 8420, Njarðargötu og 411 8440, Jafnaseli.

Allar nánari upplýsingar um hreinsunarátakið má finna á eftirfarandi síðum;

Hreinsum saman á Facebook

Hreinsum saman, tökum þátt og tínum rusl