Edda Björgvinsdóttir  leikkona Borgarlistamaður Reykjavíkur 2018 | Reykjavíkurborg

Edda Björgvinsdóttir  leikkona Borgarlistamaður Reykjavíkur 2018

föstudagur, 15. júní 2018

Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, útnefndi í dag 17. júní Eddu Björgvinsdóttur leikkonu Borgarlistamann Reykjavíkur 2018 við hátíðlega athöfn í Höfða.

 • Edda Björgvinsdóttir, borgarlistamaður Reykjavíkur 2018 ásamt Líf Magneudóttur, forseta borgarstjórnar og Elsu Yeoman, formanni
  Edda Björgvinsdóttir, borgarlistamaður Reykjavíkur 2018 ásamt Líf Magneudóttur, forseta borgarstjórnar og Elsu Yeoman, formanni menningar- og ferðamálaráðs
 • Elsa Yeoman, formaður menningar og ferðmálaráðs og Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar við athöfnina.
  Elsa Yeoman, formaður menningar og ferðmálaráðs og Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar við athöfnina.
 • Katrín Halldóra Sigurðardóttir söngkona og Björgvin Franz Gíslason, leikari og sonur Eddu, sungu við athöfnina.
  Katrín Halldóra Sigurðardóttir söngkona og Björgvin Franz Gíslason, leikari og sonur Eddu, sungu við athöfnina.
 • Edda, borgarlistamaður Reykjavíkur 2018 ásamt föður sínum Björvini Magnússyni fv. skólastjóra
  Edda, borgarlistamaður Reykjavíkur 2018 ásamt föður sínum Björvini Magnússyni fv. skólastjóra
 • Borgarlistamaður hlýtur áletraðan stein, viðurkenningarskjal og blómvönd.
  Borgarlistamaður hlýtur áletraðan stein, viðurkenningarskjal og blómvönd.
 • Edda ásamt fjölskyldunni
  Edda ásamt fjölskyldunni

Útnefningin  er heiðursviðurkenning til listamanns sem með listsköpun sinni hefur skarað fram úr og markað sérstök spor í íslensku listalífi. Elsa Hrafnhildur Yeoman formaður menningar- og ferðamálaráðs gerði grein fyrir einhuga vali ráðsins á Eddu. Listamanninum var veittur ágrafinn steinn, heiðursskjal og viðurkenningarfé.

Edda Björgvinsdóttir er fædd í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð árið 1972, útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands árið 1978 og á seinni árum hefur hún stundað nám í menningarstjórnun og jákvæðri sálfræði.

Edda er landsmönnum að góðu kunn enda hefur hún skapað nokkra af þekktustu kvenkyns grín-karakterum Íslands. Hver man ekki eftir hinni færeysku Túrillu Jóhannson úr útvarpsþáttunum Úllen Dúllen Doff, eða Bibbu á Brávallagötunni sem á nokkrar af dásamlegustu afbökunum orðtaka og málshátta íslenskunnar eða öll hlutverkin sem hún lék með stæl í Heilsubælinu í Gervahverfi. Kvikmyndin Stella í orlofi gerir Eddu að stórstjörnu á Íslandi og má hiklaust halda því fram að vinsældir og langlífi þeirrar ágætu myndar er ekki síst vegna túlkunar Eddu á hinni, jákvæðu, meðvirku og stjórnsömu Stellu. Þá eru ótalin öll áramótaskaupin sem hún hefur tekið þátt í, bæði sem handritshöfundur og leikkona, uppistöndin, revíurnar og margt fleira. Sennilega má kinnroðalaust halda því fram að engin önnur íslensk kona hefur fengið jafn marga Íslendinga til að hlæja jafn oft, mikið og innilega og Edda Björgvinsdóttir.

Edda á líka sínar dramatísku hliðar og hefur á seinni árum sýnt stórleik bæði á sviði og í kvikmyndum, nú síðast í kvikmyndinni Undir trénu sem færði Eddu – Edduna auk þess að vera valin besta leikkona í aðalhlutverki af Cinema Scandinavia.

Edda hefur auk þess rekið eigið leikhús (GEB slf. Gríniðjan, List og Fræðsla, Fræðsluleikhúsið etc.) og leikið, leikstýrt og samið efni fyrir velflesta starfandi ljósvakamiðla á Íslandi.

Meðfram leiklistinni hefur Edda haldið fyrirlestra og námskeið í tjáningu, ræðumennsku, sjálfsstyrkingu, þjónustulund, húmor sem samskipta- og stjórntæki o.fl. í velflestum stórfyrirtækjum landsins sl. 18 ár og fyrir nánast öll fjölmennustu stéttarfélög landsins.

Edda hefur jafnframt skipulagt fjölmargar hvataferðir, námskeiðsferðir og óvissuferðir innan lands og utan, fyrir allskonar fyrirtæki, félagasamtök og hópa, erlenda og innlenda, þar að auki haldið úti einstökum kvennaferðum um allan heim allt frá því 1985 og fram á þennan dag.

Hún hefur starfað sem fararstjóri fyrir fjölmargar ferðaskrifstofur m.a. á Spáni, Grikklandi, Ítalíu, Englandi Þýskalandi, Frakklandi, Finnlandi og víðar og einnig boðið uppá sérhannaðar sjálfsstyrkingar- og gleðiferðir fyrir konur víða um heim.

Edda hefur hlotið fjölda viðurkenninga á ferlinum.

 2002 tilnefnd til Eddu verðlauna – Íslensku kvikmyndaverðlaunin fyrir besta leik leikkonu í aðalhlutverki í Kvikmyndinni Stella í Framboði .

Árið 2016 voru sjónvarpsþættirnir Edda engum lík tilnefndir til Eddu verðlauna sem besta leikna gamanefnið.

 Árið 2017 var hún valin besta leikkona í aðalhlutverki af Cinema Scandinavia.

Hún hlaut Edduna – Íslensku kvikmyndaverðlaunin 2018 fyrir besta leik leikkonu í aðalhlutverki í Kvikmyndinni Undir Trénu.