Drafnarborg fagnar sjötugsafmæli

Skóli og frístund

""

Einn elsti leikskóli borgarinnar Drafnarborg við Drafnarstíg, fagnar um þessar mundir 70 ára stórafmæli. Af því tilefni verður efnt til afmælisveislu með börnum og starfsfólki í litlum hópum eins og leikskólastarfið býður upp á um þessar mundir.   

Leikskólinn Drafnarborg tók til starfa 13. október 1950 og var fyrsti leikskóli borgarinnar sem teiknaður var sem barnaheimili og byggður með þarfir ungra barna í huga. Arkitekt hússins var Þór Sandholt. Leikskólinn var rekinn af Barnavinafélaginu Sumargjöf fram til ársins 1987 þegar Reykjavíkurborg tók við rekstrinum. Þá var Bryndís Zoëga leikskólastjóri og hafði gegnt þvístarfi frá upphafi. Alls starfaði hún í 41 ár á Drafnarborg.

Drafnarborg var í byrjun þriggja deilda leikskóli með börnum í hálfsdagsvistun. Börnin komu þá með nesti og voru um 70 talsins þar daglega. Árið 1995 var byggt við húsið og það endurskipulagt. Á árinu 2011 var Drafnarborg sameinuð leikskólanum Dvergasteini við Seljaveg og bera skólarnir tveir nú saman nafnið Drafnarsteinn. 

Skólalóðin við gömlu Drafnarborg hefur á undanförnum tveimur árum tekið stakkaskiptum. Hún hefur að fullu verið endurgerð með tilliti til þess að skólinn þjónar nú alfarið leikskólabörnum á aldrinum 1-2 ára. Einnig voru gerðar breytingar innan húss til að skapa sem besta aðstöðu fyrir yngstu leikskólabörnin en 26 börn á aldrinum 1-2 ára dvelja þar nú á tveimur deildum.

Halldóra Guðmundsdóttir er leikskólastjóri í Drafnarsteini. Hún segir það mikið fagnaðarefni að Drafnarborg þjóni nú alfarið ungum börnum. Það hafi tekist að skapa umgjörð um mjúka leikskólabyrjun fyrir þau börn sem þar dvelja. „Þau hafa fullan skilning á því að leikskólinn þeirra á merkisafmæli og eru full tilhlökkunar að halda upp á það.„