Dodda Maggý hlýtur styrk úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur

Mannlíf Menning og listir

""

Erró afhenti í dag myndlistarkonunni Doddu Maggý viðurkenningu úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur. Afhendingin fór fram við hátíðlega athöfn við opnun sýningar sinnar, Svart og hvítt, í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi í dag, laugardag 13. október.

Erró afhenti í dag myndlistarkonunni Doddu Maggý viðurkenningu úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur. Afhendingin fór fram við hátíðlega athöfn við opnun sýningar sinnar, Svart og hvítt, í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi í dag, laugardag 13. október.

Dodda Maggý (f. 1981) býr og starfar í Reykjavík og hefur vakið athygli víða um heim fyrir verk sín. Hún vinnur myndlistarverk þar sem hún nýtir bæði aðferðafræði myndlistar og tónlistar. Verk hennar hafa verið sýnd víða í söfnum, galleríum og á listamessum bæði á Íslandi og erlendis, svo sem í Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Íslands, AROS safninu í Árósum, Scandinavia House í New York, Yale háskóla í Bandaríkjunum og Contemporary Art Society í Lundúnum. Verk hennar eru einnig hluti af safneignum jafnt einkasafna sem opinberra safna.

Dodda er útskrifuð með tvær BA gráður frá Listaháskóla Íslands, úr myndlist annars vegar og tónsmíðum hinsvegar. Þá er hún með MFA gráðu frá Konunglega danska listaháskólanum. Dodda Maggý hefur einnig stundað nám í listaháskólum í Svíþjóð og Noregi. 

Erró stofnaði Guðmunduverðlaunin til minningar um móðursystur sína, Guðmundu S. Kristinsdóttur frá Miðengi. Markmið sjóðsins er að styrkja listakonur með því að veita framlag til viðurkenningar og eflingar á listsköpun þeirra. Viðurkenning úr Listasjóði Guðmundu er nú ein hæsta viðurkenning sem veitt er á sviði myndlistar á Íslandi.

Stjórn Listasjóðs Guðmundu skipa safnstjórar Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands og Listasafnsins á Akureyri.

Frá árinu 1998 hafa 18 myndlistarkonur fengið viðurkenningu úr Listasjóði Guðmundu. Það eru: Ólöf Nordal (1998), Finna Birna Steinsson (1999), Katrín Sigurðardóttir (2000), Gabríela Friðriksdóttir (2001), Sara Björnsdóttir (2002), Þóra Þórisdóttir (2003), Guðrún Vera Hjartardóttir (2004), Hekla Dögg Jónsdóttir (2006), Hulda Stefánsdóttir (2008), Margrét H. Blöndal (2009), Sara Riel (2010), Þórdís Aðalsteinsdóttir (2011), Ósk Vilhjálmsdóttir (2012), Guðný Rós Ingimarsdóttir (2013), Ásdís Sif Gunnarsdóttir (2014), Sirra Sigrún Sigurðardóttir (2015), Hildigunnur Birgisdóttir (2016) og Elín Hansdóttir (2017).