Dalskóli stækkar

""

„Það er að fjölga mikið í Dalnum okkar. Við fáum u.þ.b. einn nýjan Úlfarsárdalsbúa í skólann í viku hverri,“ segir Hildur Jóhannesdóttir skólastjóri Dalskóla, en næsta haust verður nýr áfangi nýja skólans tekinn í notkun.  „Það er fjölmennast í yngri árgöngum. Við verðum með rúmlega 300 börn í grunnskólahlutanum næsta haust en það er varlega áætlað, 100 börn í leikskólahlutanum og rúmlega 100 í frístundahlutanum,“ segir Hildur.

Hildur skoðaði framkvæmdir við nýju grunnskólabygginguna í liðinni viku ásamt Helga Grímssyni sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs og Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Uppsteypu er lokið og þessa dagana verið að ganga frá utanhússklæðningu. Brátt hefst vinna við innanhússfrágang, enda ekki seinna vænna fyrir skólastarfið í haust.  „Við stefnum á að vera með 4.-10. bekk í skólabyggingunni næsta vetur, hún mun styðja vel við áherslur skólans um teymisvinnu og samstarf í smiðjum milli árganga og halda betur utan um fagstarfið. Það að fá í leiðinni fallega skólalóð í fallegum dal er mjög mikils virði,“ segir Hildur.

Leikskólabyggingin og lóð sem er næst núverandi aðstöðu Dalskóla var tekin í notkun fyrir tveimur árum. Fyrst í stað hefur það húsnæði verið notað fyrir elstu nemendur skólans, en í haust flytja nemendur inn í nýjasta húsnæðið. Hildur segir að það verði vissulega miklar breytingar á skólastarfinu í haust en það sé gleðiefni að flytja inn í nýjan skóla.   „Það eru áskoranir fólgnar í næsta vetri. Við erum að taka annan áfanga nýrrar skólabyggingar í notkun á sama tíma og allar list- og verkgreinar, íþróttir, sund, þrír grunnskólaárgangar og tveir leikskólaárgangar verða í bráðabirgðahúsnæði. Við munum einnig vera með matsalinn á gamla staðnum, stjórnunin flytur ekki strax og stoðteymið verður í skálum. Hins vegar ríkir hér bjartsýni og tilhlökkun að sjá fyrir endann á húsnæðisbröltinu en við verðum með fullbyggða aðstöðu  eftir 4 - 5 ár, þá með íþróttahúsi, sundlaug og bókasafni,“ segir Hildur.

Hildur segir að Dalskóli leggi áherslu á að öllum líði þar vel, að börnin okkar fái að vaxa og dafna, nema og blómstra. Skólinn er samrekinn leik, grunn- og frístundaskóli sem byggir á fjölbreyttum starfsháttum í hverri stoð hans. „Við eflum sjálfstæð vinnubrögð í nemendahópnum með sveigjanlegum kennslu- og starfsháttum. Lögð er áhersla á þemabundna smiðjuvinnu þar sem samþætting námsgreina og námssviða á sér stað innan árganga og á milli árganga.  Skólinn er menningarskóli sem gerir listgreinum hátt undir höfði. List er kennd listarinnar vegna og aðferðum listgreina er beitt í smiðjustarfi samofið bóknámsgreinum,“ segir Hildur. „Dalskóli er syngjandi skóli. Skólinn ræktar lærdómsmenningu meðal starfsmanna og við erum að innleiða leiðsagnarnám í kennslustundum í grunnskólahluta skólans. Í leikskólahluta skólans er börnum gefið tækifæri til þess að byggja ofan á fyrri reynslu og þekkingu í námi og starfi og er leikurinn og uppgötvunarnámið það sem gengið er út frá. Í frístundahluta skólans er barnalýðræði gert hátt undir höfði ásamt samtakamætti og gleði“.

Þegar framkvæmdum við Dalskóla verður lokið taka við framkvæmdir við menningarmiðstöð, almenningsbókasafn, sundlaug og íþróttahús.  Þau nýju mannvirki verða samtengd Dalskóla og innangengt á milli þeirra.

Tengt efni: