Búsetukjarnar byggðir fyrir fatlað fólk með miklar þjónustuþarfir

Velferð

""

Borgarráð hefur samþykkt  áætlun um byggingu 5 nýrra búsetukjarna fyrir fatlað fólk með miklar og sértækar þjónustuþarfir. Samkvæmt áætluninni munu 28 einstaklingar, þar af fimm börn fá tilboð um búsetu og þjónustu innan þessara nýju kjarna. Með nýjum húsnæðisúrræðum losnar um þjónustu sem hægt er að bjóða öðru fólki en biðlistar eru eftir skammtímaheimilum og stuðningsþjónustu.

Áætlað er að húsnæðið verði tilbúið á næstu 2 árum. Byggingarkostnaður er áætlaður 800 - 900 milljónir króna en árlegur rekstrarkostnaður verður um 540 milljónir.

Samkomulag hefur verið gert við Félagsbústaði sem hefur hafið undirbúning með velferðarsviði Reykjavíkurborgar og umhverfis- og skipulagssviði. Staðsetning búsetukjarnanna verður á Austurbrún, Þorláksgeisla, Kambavaði og Einholti.  

Aðrar mögulegar lóðir vegna framtíðaruppbyggingar velferðarsviðs vegna sértækra búsetuúrræða fyrir fatlað fólk gætu verið: Bústaðablettur, Vesturberg , Sólheimar og Holtavegur. Sækja þarf um sérstök byggingarleyfi á þessum stöðum og því henta þær lóðir til framtíðaruppbyggingar frá árinu 2017.

Einstaklingsmiðuð þjónusta og sanngjörn leiga

Íbúar nýrra þjónustukjarna fá einstaklingsmiðaða þjónustu út frá sínum þörfum og óskum, þó svo um búsetukjarna sé að ræða. Kjarnarnir eru einungis byggðir fyrir þá sem þurfa vegna fötlunar sinnar mjög sértækt húsnæði þar sem tekið er mið af aðstæðum strax á hönnunarstigi.

Annað fatlað fólk getur búið í eigin húsnæði, í búseturéttaríbúðum og eða á leigumarkaði. Með tillögu þessari er fundin leið til þess að leigan verði afar sanngjörn þó svo húsnæðið sé í sjálfu sér dýrt. Íbúarnir munu greiða þá fermetra sem eru í sinni íbúð og miðast fermetraverð  við leiguverð Félagsbústaða í nýbyggðum fjölbýlishúsum. 

Tillaga að áfangaskiptri áætlun um uppbyggingu á sértæku húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk vegna stöðu umsókna á biðlista.