Búseti byggir 72 íbúðir í Árskógum

Framkvæmdir

Jón Ögmundsson, Bjarni Þór Þórólfsson, Gunnlaugar Magnússon, Dagur B. Eggertsson, Hafsteinn K. Halldórsson, Avendrés Jónsson og Helga Egla Björnsdóttir þegar fyrsta skóflustungan var tekin

Búseti er nú að hefja byggingu á 72 íbúðum í Árskógum í Mjóddinni og tóku Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta, fyrstu skóflustunguna að fjölbýlishúsunum í dag. 

Í Árskógum 5-7 byggir Búseti 72 íbúðir í tveimur byggingum. Um er að ræða fjölbýli með stúdíóíbúðum og tveggja og þriggja herbergja íbúðum. Við hönnun var horft til þess hafa íbúðirnar í minna lagi þar sem hver fermetri er vel nýttur og mæta þær þannig óskum félagsmanna.

Húsin eru vel staðsett hvað varðar samgöngur og munu íbúar njóta góðs af fjölbreyttri þjónustu í næsta nágrenni. Í nýbyggingum Búseta er gætt að áherslum samtímans í hönnun hvað varðar reiðhjól og rafhleðslur fyrir bíla. Búseti hefur samið við Jáverk um byggingu húsanna. Framkvæmdir hefjast á næstu dögum og er áætlað að íbúðirnar verði tilbúnar á miðju ári 2021.  A2F arkitektar eru aðalhönnuðir verkefnisins.

Búseti mun auk þessa afhenda tuttugu nýjar íbúðir við Skógarveg í Fossvogsdal í lok þessa árs. Á Keilugranda í Vesturbæ Reykjavíkur byggir félagið 78 íbúðir sem verða afhentar á miðju næsta ári og þá er einnig hafin hönnun fjölbýlis með 30 íbúðum í Bryggjuhverfi.