Búið að ráða í 96% stöðugilda í leikskólunum | Reykjavíkurborg

Búið að ráða í 96% stöðugilda í leikskólunum

þriðjudagur, 11. september 2018

Samkvæmt yfirliti um stöðu ráðninga í leikskólum, grunnskólum og frístundamiðstöðvum borgarinnar sem kynnt var í skóla- og frístundaráði í dag er staðan til muna betri en á sama tíma í fyrra.

 

  • Lifað og lært á frístundaheimili
    Lifað og lært á frístundaheimili

Búið er að ráða í 96% allra stöðugilda í  62 leikskólum borgarinnar,  en um 56 stöðugildi eru ómönnuð. Á sama tíma í fyrra átti eftir að ráða í um 120 stöðugildi. Staðan hefur engu að síður áhrif á hvenær hefja má aðlögun um 90 barna sem fengið hafa vistun í leikskólunum.

Í 36 grunnskólum hefur verið ráðið í 99% allra stöðugilda, en 25 stöðugildi eru ómönnuð. Á sama tíma í fyrra vantaði fólk í tæplega 60 stöðugildi í grunnskólunum.

Á 39 frístundaheimili er búið að ráða í 77% stöðugilda en óráðið er í rösklega 80 stöðugildi sem jafngildir 167 starfsmönnum í hálft starf. Á sama tíma í fyrra vantaði 226 starfsmenn í 114 stöðugildi. Rösklega þúsund börn bíða eftir því að komast inn á frístundaheimili.

Sjá minnisblað um stöðuna í starfsmannamálum sem kynnt var í skóla- og frístundaráði í dag.