Bryggjuhverfi tengist Höfðunum með stígum

Samgöngur Skipulagsmál

""

Nýr göngu- og hjólastígur og tröppustígur sem liggur á milli Bryggjuhverfis og Ártúnshöfða opnar nýja möguleika fyrir íbúa.

Íbúar í Bryggjuhverfi héldu litla athöfn í gær vegna opnunar nýrra göngu- og hjólastíga sem hafa verið lagðir á milli Sævarhöfða og Svarthöfða beint fyrir ofan hverfið. Stígarnir mynda góða tengingu fyrir íbúa í Bryggjuhverfinu við Ártúnshöfða.  

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnaði stígana formlega en Bryggjuráð, íbúasamtök Bryggjuhverfisins, stóð fyrir athöfninni en íbúarnir hafa lengi hvatt borgaryfirvöld til að koma á þessari tengingu við Ártúnshöfða. Bjarni Þór Þórólfsson formaður Bryggjuráðs hélt einnig ávarp þar sem hann þakkaði borginni fyrir að hafa ráðist í framkvæmdina sem væri mikil búbót fyrir íbúa hverfisins. Hann þakkaði einnig Þorsteini Þorgeirssyni íbúa í hverfinu sem hefur verið hvatamaður að verkefninu.

Framkvæmdir við stígana hafa staðið yfir í nokkurn tíma en nú eru þeir tilbúnir. Um er að ræða þriggja metra breiðan og 300 metra langan og upplýstan malbikaðan göngu- og hjólastíg. Hækkunin er um 27 metrar, og er meðalhallinn um 10%, sem er mjög viðráðanlegt. Einnig er hægt að fara um styttri tveggja metra breiðan tröppustíg með handriði. 

Næstkomandi sumar stendur til að göngustígurinn verði framlengdur meðfram Svarthöfða að Stórhöfða. Stígurinn mun m.a. mynda góða göngu- og hjólatengingu við Borgarlínuna sem mun ganga í gegnum Ártúnshöfða. Lítilsháttar frágangur er eftir við stígana, t.d. sáning grass í moldarflög.

Þorsteinn Þorgeirsson íbúi í Bryggjuhverfi, sem hefur gróðursett fjölmörg tré í brekkunni og er hvatamaður að stígunum, vonar að íbúar og borgin haldi áfram að þróa svæðið. Trén eru sum hver orðin tuttugu ára gömul og dafna vel. Hann segir að brekkan fyrir neðan Höfðann geti orðið að sælureit fyrir borgarbúa í framtíðinni. „Þetta verður okkar skrúðgarður fyrir ofan hverfið. Stígarnir eru frábær tenging við Ártúnshöfða og auka mikið útivistarmöguleika okkar hér í Bryggjuhverfinu auk þess að mynda nauðsynlegan hlekk í kerfi vistvænna samgangna á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Þorsteinn.  

Uppbygging i Bryggjuhverfinu gengur vel en þar eiga eftir að bætast við tæplega átta hundruð íbúðir af öllum stærðum og gerðum. Bjarg íbúðafélag hefur t.d. ráðist í byggingu 153 leiguíbúða í hverfinu.