Brúðubíllinn aftur á ferð

Skóli og frístund Mannlíf

""

Sumarið er tíminn þegar Brúðubíllin fer um hverfi borgarinnar með brúðuleiksýningar fyrir yngstu áhorfendurna.

Það kostar ekkert að sjá sýningar Brúðubílsins og allir eru velkomnir. Á ferðinni eru bæði þekktar brúður eins og Lilli, Blárefurinn og auðvitað Úlli úlfur, sem er bæði hrekkjóttur og stríðinn og svo er alltaf von á nýjum persónum og leikendum.

Sýnt er á gömlum gæsluvöllum og ýmsum útivistarsvæðum eins og t.d. Hallargarðinum, Árbæjarsafni og á Klambratúni. Sýningarnar eru í júní og júlí. Hver sýning tekur um 30 mínútur. Brúðubíllinn sýnir hvernig sem viðrar og aldrei hefur fallið niður sýning sökum veðurs þó oft bæði rigni og blási hressilega.

Brúðubíllinn er bæði til skemmtunar og fræðslu. Börnum er kennt að ganga vel um náttúruna, vera góð við blóm og dýr og sérstaklega og ekki síst við hvert annað.