Brjóstmynd af Gunnari Thoroddsen í Hallargarðinn

Mannlíf Menning og listir

""

Brjóstmynd af Gunnari Thoroddsen (1910-1983) fyrrverandi borgarstjóra og forsætisráðherra hefur nú verið komið fyrir á ný í borgarlandinu. Verkið er eftir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara (1908-1982) og stendur nú í Hallargarðinum við Fríkirkjuveg 11. Fasið og líkamsreisnin voru einkenni sem Sigurjón lagði mikla áherslu á ekki síður en höfuðlagið eitt eða andlitssvipur.

Brjóstmynd af Gunnari Thoroddsen (1910-1983) fyrrverandi borgarstjóra og forsætisráðherra hefur nú verið komið fyrir á ný í borgarlandinu. Verkið er eftir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara (1908-1982) og stendur nú í Hallargarðinum við Fríkirkjuveg 11. Fasið og líkamsreisnin voru einkenni sem Sigurjón lagði mikla áherslu á ekki síður en höfuðlagið eitt eða andlitssvipur.

Brjóstmyndin var fyrst sett upp við við æskuheimili Gunnars að Fríkirkjuvegi 3 árið 1985. Þegar húsið var selt var verkið tekið niður og því komið fyrir í geymslum Listasafns Reykjavíkur. Fjölskylda Gunnars gaf Reykjavíkurborg verkið og er það í umsjón Listasafns Reykjavíkur.

Það er vel við hæfi að brjóstmyndin standi í Hallargarðinum enda beitti Gunnar sér fyrir því í sinni borgarstjóratíð að gera almenningsgarð á þessum stað. Í skýrslu Braga Bergssonar um almenningsgarða í Reykjavík segir: „Sú uppbygging markaði kaflaskil í garðyrkjusögu landsins og olli straumhvörfum í hugsunarhætti almennings varðandi skipulag garða. Aðrar eins garðyrkjuframkvæmdir höfðu aldrei áður sést þar sem fjórir garðar voru sameinaðir í einn með allskyns bogalaga göngustígum, gróðurbeðum og tjörn."

Garðurinn var formlega opnaður á kaupstaðarafmæli Reykjavíkur þann 18. ágúst árið 1954 og þótti mikil bæjarprýði. Garðurinn hefur hlotið nokkra andlitslyftingu samhliða endurgerð hússins við Fríkirkjuveg 11, sem Thor Jensen lét byggja árið 1908.

Önnur útilistaverk í garðinum í umsjá Listasafns Reykjavíkur eru Stúlkumynd (1964) eftir Ólöfu Pálsdóttur (1920-2018) sem stendur fyrir framan Kvennaskólann, Adonis (1974) eftir Bertel Thorvaldsen (1797–1838), við suðurinngang garðsins, Piltur og Stúlka (1988) eftir Ásmund Sveinsson (1893-1982) og svo minnismerki um hjónin Thor og Þorbjörgu Jensen (1989) eftir Helga Gíslason (f. 1947).