Börnin á Hótel Sögu fá kennslu í Vesturbæjarskóla

Kennsla úkraínskra barna í Vesturbæjarskóla

Það er líf og fjör meðal úkraínsku barnanna sem fengið hafa stofu í Vesturbæjarskóla til að halda áfram námi með kennurum frá heimalandinu. Þau búa enn á Hótel Sögu og því ekki komin með lögheimili. Það er því ekki ljóst í hvaða sveitarfélagi þau muni búa og hvar þeirra heimaskóli verður. Reykjavíkurborg ákvað því að koma á sérstöku skólaúrræði svo skólaganga þeirra myndi ekki rofna frekar.

Kennararnir nýkomnir frá Odessa

Tveir kennarar hafa verið ráðnir af skóla- og frístundasviði til að kenna börnunum og undirbúa þau undir nám í íslenskum skólum. Börnin eru tíu talsins sem stendur en búast má við að þeim fjölgi á næstunni. Kennararnir eru þær, Olha Parfonova og Anzhela Svarychevska sem sjálfar komu til landsins í sumar, báðar frá Odessa. Börnin fá kennslu í úkraínsku, ensku, samfélagsfræði, stærðfræði og íslensku. Auk þeirra Olha og Anzhela, kemur Oksana Shabatura daglega eða annan hvern dag til að sjá um íslenskukennsluna, fræðir börnin um íslenskt skólakerfi og býr þau undir að að fara í almennan skóla.

Þær Oksana og Dagbjört Ásbjörnsdóttir, verkefnastjóri fjölmenningar hjá skóla- og frístundasviði, stukku til og komu þessu úrræði á laggirnar þegar ljóst var að börnin hefðu lítið við að vera á daginn. Þær byggja á reynslunni frá því í vor þegar opnuð var skóla- og fjölskyldumiðstöð í tvo mánuði. „Við höfum fengið rosalega góðar móttökur í skólanum hér. Þau leyfa okkur að nota textílstofur, eldhús og íþróttasal og annað þegar er laust hjá þeim,“ segir Oksana.

Börnin í Vesturbæjarskóla telja góðar móttökur sjálfsagðar

Margrét Einarsdóttir, skólastjóri Vesturbæjarskóla, segir það hafa verið sjálfsagt mál að bjóða börnunum til þeirra, fyrst þau höfðu pláss. „Við kynntum þetta fyrir börnunum og þau hafa boðið þau velkomin og finnst þetta sjálfsagt. Við erum fjölmenningarlegur skóli, hér eru börn frá hátt í 30 löndum, þannig að þetta er bara eðlilegt í okkar skóla,“ segir Margrét og leggur áherslu á að allt samfélagið þurfi að sinna móttöku flóttafólks og gera þeim kleift að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.

Olha tekur undir að móttökurnar hafi verið góðar og segist hafa tárast vegna þess hversu vel börnin sem fyrir eru í skólanum taki á móti þeim úkraínsku. „Þau kíktu á gluggann til að sjá hvort þau gætu ekki komið út á skólalóð með þeim,“ segir Olha. Þegar Fjörleikarnir fóru fram úti á skólalóð í vikunni blönduðust þau úkraínsku alveg inn í barnahópinn og tungumálaörðugleikar voru víðs fjarri.