Börn minna á grundvallarréttindi sín | Reykjavíkurborg

Börn minna á grundvallarréttindi sín

föstudagur, 23. nóvember 2018

Börnin í frístundaheimilum Tjarnarinnar fóru í dag í árlega réttindagöngu til að fagna 29 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

 • um 300 börn gengu fylktu liði frá Hallgrímskirkju að Þjóðleikhúsinu til minna á grundvallarréttindi sín
  Um 300 börn í 2. bekk grunnskólum Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða sem gengu fylktu liði frá Hallgrímskirkju að Þjóðleikhúsinu til að minna á grundvallarréttindi sín
 • Börnin í frístundaheimilum Tjarnarinnar fóru í dag í árlega réttindagöngu til að fagna 29 ára afmæli Barnasáttmála
  Börnin í frístundaheimilum Tjarnarinnar fóru í dag í árlega réttindagöngu til að fagna 29 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
 • Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar, tók með glöðu geði við áskorun frá börnunum
  Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar, tók með glöðu geði við áskorun frá börnunum
 • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók við áskorunum barnanna fyrir hönd Alþingis.
  Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók við áskorunum barnanna fyrir hönd Alþingis.
 • Salka Sól/ Ronja syngur sig inn í hug og hjörtu allra viðstaddra
  Salka Sól/ Ronja syngur sig inn í hug og hjörtu allra viðstaddra

Í tilefni göngunnar vildu börnin hvetja borgarfulltrúa og alþingismenn til að kynna sér Barnasáttmálann og þær skuldbindingar sem sáttmálinn felur í sér. Í tilefni dagsins afhentu þau fulltrúum borgarstjórnar og alþingis áskorun þar sem þeim var bent á að það er samfélaginu til heilla að halda vörð um réttindi barna.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar, tók með glöðu geði við áskorun frá börnunum og sagði það mikilvægt að rödd barna heyrðust og að þau hefðu tækifæri til að taka þátt í því að móta borgina okkur. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók við áskorunum barnanna fyrir hönd Alþingis.

Það voru um 300 börn í 2. bekk grunnskólum Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða sem gengu fylktu liði frá Hallgrímskirkju að Þjóðleikhúsinu til að minna á grundvallarréttindi sín, svo sem réttinn til verndar, til umönnunar og til þátttöku. Börnin í réttindagöngunni voru frá frístundamiðstöðinni Tjörninni eða frístund í Draumalandinu, Eldflauginni, Frostheimum, Halastjörnunni, Skýjaborgum, Selinu og Undralandi. 

Í réttindavikunni eru réttindi barna í brennidepli í  starfi  Tjarnarinnar. Börnunum er kennt um réttindi barna, barnasáttmálann, lýðræðisleg vinnubrögð og að þekkja muninn á réttindum og forréttindum. Réttindagangan er liður í því að styrkja rödd barnanna og gera þau meðvituð um réttindi sín og annarra.

20. nóvember fyrir 29 árum var samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins lagður fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna til undirritunar og fullgildingar. Hann var fullgiltur af Íslandi árið árið 1992 og lögfestur árið 2013 og er því nú hluti af íslenskri löggjöf.

Vefur um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna