Börn læri meira í forritun

Skóli og frístund

""

Tillaga um að auka framboð á forritunarnámi og forritunarkennslu í skóla- og frístundastarfi borgarinnar var samþykkt samhljóða af fulltrúum allra flokka í borgarstjórn. Samþykkt var breytingartillaga meirihluta Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna við tillögu Katrínar Atladóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Sérstök áhersla verði lögð á að veita kennurum í grunnskólum Reykjavíkur rík tækifæri til starfsþróunar í forritunarkennslu í tengslum við innleiðingu á menntastefnu Reykjavíkur. 

Er þetta í samræmi við áherslur nýrrar menntastefnu þar sem einn af fimm hæfniþáttum stefnunnar snýst um læsi. Með læsi er átt við þá hæfni nemenda að geta lesið, skilið, túlkað og unnið á gagnrýnan hátt með ritað mál, orð, tölur, myndir og tákn. Í víðtækri merkingu vísar hugtakið einnig til læsis á ólíka miðla, umhverfi, hegðun og aðstæður.  

Einnig er kveðið á um það í nýrri menntastefnu að innleiða á heildstæðan hátt stafræna tækni í skóla- og frístundastarfi í samræmi við samþykkta stefnu skóla- og frístundasviðs um notkun upplýsingatækni.

Sterk rök eru fyrir mikilvægi forritunarkennslu í grunnskólum og á það sérstaklega við um forritun sem fram fer á fjölbreyttan og skapandi hátt í samhengi við annað nám nemenda. Tryggja þarf sem bestan undirbúning nemenda fyrir framtíð þar sem vægi tækni og sköpunar verður sífellt mikilvægari.

Skóla- og frístundasviði verður falið að útfæra tillöguna í samræmi við áherslur menntastefnunnar á læsi sem einn af grundvallar hæfniþáttum stefnunnar, aukið vægi náttúruvísinda og stærðfræði og loks heildstæða innleiðingu stafrænnar tækni.

Menntastefna Reykjavíkurborgar til 2030

Stefna um nýtingu upplýsingatækni hjá Reykjavíkurborg 2018-2022