Borgin verði í forystu við þróun hringrásarhagkerfisins

Umhverfi

Hringrásarmiðstöð, samræmd úrgangsflokkun, auðlindagarður og nýting fráveituúrgangs eru meðal tillagna starfshóps um hringrásarhagkerfið í Reykjavík. Tillögurnar snúast um fjóra lykilþætti hringrásarhagkerfisins; þ.e. byggingariðnað, innkaup, úrgangsmál og deilihagkerfið og loks ný viðskiptatækifæri í hringrásarhagkerfinu.

Síðustu ár hefur umræða og vitund almennings um umhverfisáskoranir aukist mjög. Samfélag sem grundvallast á neyslumenningu er ósjálfbært og afleiðingin er ofnýting náttúruauðlinda, sem birtist m.a. í loftslagsbreytingum, plastmengun í hafi og hnignun vistkerfa. Í hringrásarhagkerfi er verslað með vörur og þjónustu í lokaðri hringrás til að viðhalda verðmætum sem lengst. Hönnun og framleiðslu vöru er háttað þannig að hægt sé að lengja líftíma hennar með viðgerðum og endurnotkun og endurvinna að notkun lokinni. Við tekur svo kerfi þar sem úrgangur er meðhöndlaður þannig að hann sé nothæfur sem hráefni í nýja framleiðslu.

Árið 2015 gaf Evrópusambandið út aðgerðaáætlun til að stuðla að innleiðingu hringrásarhagkerfis í álfunni og á grundvelli hennar liggja nú fyrir drög að stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra Íslands í úrgangsmálum: Í átt að hringrásarhagkerfi. Reykjavíkurborg er stærsta sveitarfélag og vinnustaður landsins, með um 10 þúsund manns á launaskrá á yfir 300 starfsstöðum. Borgin getur orðið leiðandi afl í umbreytingu íslensks samfélags í átt að hringrásarhagkerfi og eitt stærsta verkefni næstu ára verður innleiðing þess.

Fjölbreyttar og spennandi tillögur

Í byrjun síðasta árs var starfshópi falið að gera tillögu að aðgerðaráætlun sem nú liggur fyrir og þar eru margar áhugaverðar tillögur, til að mynda:

Hringrásarmiðstöð: Sköpuð verði aðstaða (markaðstorg) sem auðveldar og eflir hringrás endurnotanlegrar vöru og hráefna, til notkunar og sköpunar.

Samræmd úrgangsflokkun: Kröfur verði gerðar um samræmda flokkun úrgangs hjá stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar og hjá íbúum (heimili) með það að markmiði að einfalda reglur og fræðslu um flokkun úrgangs og ná auknum árangri í endurvinnslu.

Auðlindagarður- endurnýting efnis frá byggingarsvæðum: Margvíslegt efni fellur til á byggingarsvæðum, t.d. jarðvegur (mold) og grjót. Skapa þarf aðstöðu fyrir auðlindagarða sem gera mögulegt að flokka jarðefni. Þannig má stuðla að sem bestri nýtingu þeirra.

Nýting fráveituúrgangs: Urðun á fitu og sandi úr skólphreinsistöðvum höfuðborgarsvæðisins verði hætt ekki seinna en árið 2023 og í staðinn verði fitan og sandurinn nýtt.

Tillögur sem nýtast í margs konar samstarfi

Einnig leggur hópurinn til að borgarráð samþykki eftirfarandi sem eigendastefnu Reykjavíkurborgar sem nái til starfsemi hennar og stefnu gagnvart fyrirtækjum í eigu borgarinnar: Reykjavíkurborg og fyrirtæki borgarinnar verði í forystu við þróun hringrásarhagkerfisins á höfuðborgarsvæðinu með áherslu á hringrásarhugsun allt frá skipulagi og uppbyggingu til betri nýtingar auðlinda, endurnýtingar, lengri líftíma, minni úrgangs og minni sóunar.

Tillaga borgarstjóra um málsmeðferð fyrir tillögur starfshópsins hefur verið lögð fyrir  borgarráð og var samþykkt að vísa henni til umsagnar umhverfis- og heilbrigðisráðs og stýrihóps um mótun almennrar eigendastefnu Reykjavíkurborgar. Vinna starfshópsins mun gagnast sem efniviður í pólitískar ákvarðanir í borginni og í margs konar samstarfi við önnur sveitarfélög. Þá geta verkefni í hringrásarhagkerfinu orðið mikilvægur þáttur í umsókn borgarinnar um þátttöku í Evrópusamstarfi um kolefnishlutlausar og snjallar Evrópuborgir 2030.