Borgin okkar - styrkir íbúaráða 2022

Blómabeð í Breiðholti

Auglýst er eftir verkefnum og viðburðum sem ætlað er að stuðli að auknu mannlífi, menningu, félagsauði og lífsgæðum í hverfunum árið 2022. Mikilvægt er að verkefnin höfði til allra aldurshópa og skírskoti til breiðs hóps fólks sem vill sækja sér afþreyingu og upplifun í eigin hverfi.

Íbúaráð afgreiddu styrki á vordögum og nú er opnað fyrir umsóknar að nýju í þeim hverfum sem ennþá hafa fé til úthlutunar. Íbúaráð Kjalarness, Grafarholts og Úlfarsárdals og Árbæjar og Norðlingaholts hafa þegar úthlutað því styrkfé sem þau höfðu til umráða. Upphæðir styrkjanna eru í samræmi við íbúafjölda hverfanna. Eftirfarandi eru þær fjárhæðir sem sex íbúaráð hafa til úthlutunar.

Upphæðir eru eftirfarandi:

Íbúaráð Breiðholts

kr. 1.700.000

Íbúaráð Grafarvogs

kr. 1.590.000

Íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis

kr. 1.967.000

Íbúaráð Laugardals

kr. 2.155.000

Íbúaráð Miðborgar og Hlíða

kr. 640.000

Íbúaráð Vesturbæjar

kr. 2.622.000

 

Umsóknarfrestur er frá 21. september til og með 16. október 2022. Að öllu jöfnu er miðað við að styrkupphæðir fyrir hvert verkefni, séu á bilinu kr. 50.000 til 500.000. Starfsstaðir Reykjavíkurborgar geta ekki sótt um styrki en geta verið samstarfsaðilar í verkefnum sem aðrir sækja um styrki til.

Hverjir geta sótt um og hvað er styrkt?

Einstaklingar, félagasamtök eða aðrir hópar sem vinna saman að einstöku verkefni geta sótt um styrk í sjóðinn. Markmið sjóðsins er að efla hverfisanda, félagsauð, mannlíf og menningu í hverfunum.

Styrkir geta til dæmis fallið til:

  • Viðburða í hverfum borgarinnar sem höfða til allra aldurshópa
  • Markaða sem efla líf í hverfinu
  • Tónleika, listviðburða eða annað sem eflir hverfisvitund
  • Viðburða eða verkefna tengd jólum
  • Hreinsun eða gróðursetningar á svæðum innan hverfisins
  • Önnur verkefni sem eru til þess fallin að auka félagsauð og styrkja hverfisvitund

Styrknum er ekki ætlað að koma í stað launa heldur vegna efniskostnaðar, kaupa á listviðburðum, kostnaði við leiðbeinendur, auglýsingakostnað eða veitingar.

Vakin er athygli á því að viðburðir eða verkefni eru ekki styrkt eftir á.

Styrkþegar skulu þegar við á sækja um nauðsynleg leyfi fyrir framkvæmd verkefnis, t.d. notkun á borgarlandi og uppsetningu mannvirkja. Frekari leiðbeiningar eru veittar hjá starfsmönnum mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu: hverfissjodur@reykjavik.is.

Nánari upplýsingar