Borgin í páskabúning

Umhverfi

""

Starfsfólk Reykjavíkurborgar vinnur nú hörðum höndum að því að prýða borgina fyrir páska og er miðborgin óðum að færast í gulan gleðibúning. Það er garðyrkjufólk á nýrri hverfastöð á Fiskislóð sem sér um gróðursetningu og hefur það verið að störfum í dag á Laugavegi og neðsta hluta Skólavörðustígs.

Páskaliljur, bæði tête-à-tête og hvítar, sifjarlyklar og perluliljur prýða kerin í borginni sem eru jafnframt skreytt tágakrönsum úr víðigreinum.

Trjákurl var sett yfir moldina fyrir helgi til að verja jarðveginn gegn frosti til að tryggja að hægt væri að planta nú. Vanalega hafa páskaskreytingarnar verið fyrr á ferðinni en kuldinn hefur sett strik í reikninginn í ár.

Gestir og gangandi hafa lýst ánægju sinni með skreytingarnar við garðyrkjufólkið. Guli liturinn er upplífgandi og hressilegur, sem er eitthvað sem fólk tekur fagnandi um þessar mundir. Haldið verður áfram að planta fram að páskum.