Borgarsýn um umhverfis- og skipulagsmál

Samgöngur Umhverfi

Séð upp Laugaveg úr Bankastræti

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hefur gefið út blaðið Borgarsýn undanfarin ár og nú hefur 24. tbl. komið út og kennir þar margra grasa. 

Ljósmynd/Silja Yraola

Sumarið er meðal annars tími framkvæmda, gróðurs og góðra hugmynda. Blómin prýða helstu staði og torg borgarinnar í öllum hverfum. Ekki er síðra að njóta jurta í Grasagarðinum. Blómalitur Reykjavíkurborgar í sumar er rauður og ekki vantar viðburði og hátíðir.

Borgarsýn, blað umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurbogar, fagnar nú sumri en í blaðinu má meðal annars finna upplýsingar um göngugötur í miðborginni og hvetur alla til að njót sumarsins þar. Í könnun sem gerð varð árið 2018 kom í ljós að um sautján þúsund ganga eða hjóla Laugaveg á hverjum degi. Laugavegur og Skólavörðustígur ásamt Austurvelli hafa skapað sér sérstöðu með því að vera staðir þar sem fólk vill njóta mannlífs, hittast og spjalla við vini. 

Borgarsýn gerir ávallt tilraun til að veita innsýn í margskonar efni sem er á dagskrá umhverfis og skipulagssviðs og hvert eintak lýsir aðeins broti af starfinu. Mjög áhugavert er til dæmis að kynna sér LED smartvæðingu borgarinnar sem skapa færri vistspor. Þá eru framkvæmdir á Kirkjusandi í fullum gangi og hægt að kynna sér það. Umhverfismálin fá sinn skerf og má nefna endurheimt votlendis í Úlfarsárdal og friðland fugla í Akurey. Nýr spennandi þáttur í blaðinu nefnist Söguhundurinn, þá má finna efni um grænar þróunarlóðir, hugmyndasamkeppni, framkvæmdir við malbikun ofl.

Loftslagsmál hafa verið í brennidepli á árinu. Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar styður vakningu í loftslagsmálum og stendur fyrir fundum um málin m.a. með öflugu fólki úr grasrótinni. Við spyrjum: Hvað getum við gert? Hvaða áhrif getur borgarskipulag haft á loftslagsmál? Hvernig tengist skipulag og hönnun heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem eru besta áætlun í heimi til að takast á við loftslagsbreytingar? Þetta eru knýjandi spurningar sem við ætlum að glíma við á næstu misserum.

Tengill

Borgarýn 24. tbl. 2019