Borgarsýn á framkvæmdir í Reykjavík

Umhverfi Skipulagsmál

""

Borgarsýn, kynningarrit Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar er komið út í þrettánda sinn. Tilgangur útgáfunnar er fyrst og fremst að upplýsa borgarbúa um þau verkefni sem eru efst á baugi skipulagsmála hverju sinni.

Í ritinu er m.a. fjallað um framkvæmdir í borginni en fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015 gerir ráð fyrir að margvísleg verkefni verði framkvæmd fyrir tæpar 9.4 milljarða króna  þessu ári.
Ráðist verður í byggingu á nýjum leik og grunnskóla í Úlfarsárdal og hafnar eru framkvæmdir við viðbyggingar og breytingar í Klettaskóla og Vesturbæjarskóla. Í Úlfarsárdal mun einnig rísa ný almenningssundlaug ásamt menningarmiðstöð og íþróttamannvirkjum á komandi árum. Verið er að reisa viðbyggingu og útilaug við Sundhöllina við Barónsstíg og er áætlað að þeim framkvæmdum ljúki um mitt ár 2017. Þá er verið að ljúka smíði á 12 nýjum færanlegum kennslustofum sem staðsettar verða víðs vegar við grunnskóla borgarinnar og 1.800 milljónum verður varið til ýmissa viðhaldsverkefna.

Það verður malbikað  fyrir um 700 milljónir króna á götum borgarinnar í ár og áfram er unnið eftir hjólreiðaáætlun og verða lagðir nýir hjólastígar fyrir um 350 milljónir. Stærstu verkefnin í ár eru hjólastígar við Kringlumýrarbraut, Bústaðaveg, Háaleitisbraut, Safamýri, Stekkjarbakka og í Elliðaárdal.

Undirbúnings- og skipulagsvinna er í gangi vegna uppbyggingar á rúmlega1.100 íbúða- og atvinnuhverfi í nýrri Vogabyggð. Þá eru framkvæmdir hafnar við gatnagerð á Hlíðarendasvæðinu.
Á síðasta ári voru um 140 framkvæmdaverkefni boðin út og má gera ráð fyrir að þau verði ekki færri í ár. Verkefnin eru ekki öll stór og eru smærri verkefni oft boðin út saman í pakka t.d.
verkefni sem íbúar kjósa í gegnum „Betri hverfi“. Verkefnin þurfa engu að síður töluvert utanumhald. Allt eru þetta verkefni sem ætlað er að auka og bæta þjónustuna við borgarbúa og gera Reykjavík að betri og skemmtilegri borg að búa í.

Í Borgarsýn er einnig fjallað um Torg í biðstöðu en þetta er fimmta sumarið sem torgum borgarinnar er ljáð aukið líf yfir sumarmánuðina.

Kynnt er rammaskipulag við Ártúnshöfða og við Elliðaárvog. Einnig er fjallað um vinningstillögu á RÚV-reitnum og nýtt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins til 2040.

Sagt er frá niðurgröfnum grenndarstöðvum en þá er gámum komið fyrir neðanjarðar og fólk tæmir í lúgur sem eru sýnilegar ofanjarðar. Þetta hefur reynst mjög hagkvæmt þar sem byggð er þétt. Þá er einnig fjallað um almenningssamgöngur og Hreystigarði við Bríetartún.

Hægt er að kynna sér ofantaldar framkvæmdir og fleiri í nýrri útgáfu af Borgarsýn