Borgarstjórn samþykkir matarstefnu til 2022 | Reykjavíkurborg

Borgarstjórn samþykkir matarstefnu til 2022

miðvikudagur, 16. maí 2018

Ný matarstefna Reykjavíkurborgar hefur að markmiði að stuðla að betri heilsu borgarbúa, styrkjamáltíðaþjónustu og stuðla að því að borgin nái markmiðum um öryggi, sjálfbærni, lýðheilsu og hagkvæmni. Borgarstjórn samþykkti stefnuna á fundi sínum í gær. 

  • Nemendur Laugalækjarskóla snæða hafragraut að morgni.
    Nemendur Laugalækjarskóla snæða hafragraut að morgni. Nú hefur ný matarstefna litið dagsins ljós en hafragrauturinn stendur alltaf fyrir sínu.

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum 15. maí nýja Matarstefnu Reykjavíkurborgar samkvæmt tillögu stýrihóps sem verið hefur að störfum frá því í mars 2016. Stefnumótunin hefur að markmiði að stuðla að betri heilsu borgarbúa, styrkja máltíðaþjónustu og stuðla að því að borgin nái markmiðum sínum um öryggi, sjálfbærni, lýðheilsu og hagkvæmni.

Í stefnunni eru sett fram fimm yfirmarkmið um styttri og sýnilegri leið matar frá bónda til maga, sjálfbærni og gæði, bætta matarmenningu, aukið aðgengi að hollum mat og betri nýtingu matar. Þá fylgir stefnunni aðgerðaráætlun sem vísað var til fjárhagsáætlunargerðar.

,,Undanfarin ár hafa áhrif matar á lýðheilsu, sjálfbærni og loftslagsmál orðið flestum ljós og ljóst er að við verðum að endurskoða hvernig við framleiðum, borðum og nýtum mat. Reykjavíkurborg getur gert margt til að stuðla að því að íbúar eigi auðveldara með að nálgast hollan mat og tileinki sér sjálfbæran lífsstíl og það viljum við gera,” segir Heiða Björg Hilmisdóttir sem veitti stýrihópnum forystu. ,,Matarmenning Reykjavíkur á að vera spennandi og nálæg okkur í daglegu lífi hvort sem við erum að rækta eigin matvæli, elda sjálf eða fáum mat frá einu af fjölmörgum eldhúsum borgarinnar. Matur á að verða mikilvægur þáttur í allri starfsemi á vegum borgarinnar ,hann á að vera hollur, fjölbreyttur og matreiddur nálægt þeim sem neytir matarins. Þá er aukin áhersla á grænmetisfæði og unnið markvisst gegn matarsóun í borginni allri.”

Við gerð stefnunnar var stuðst við „Food Smart Cities for Development Recommendations and Good Practices“ sem byggir á „Milan Urban Food Policy Pact“ sem yfir 130 borgir í Evrópu hafa skrifað undir.

Í matarstefnunni segir m.a.: „Borgin getur haft áhrif á mat og neysluvenjur með ýmsum hætti; með þeim máltíðum sem framleiddar eru á vegum borgarinnar og bornar fram fyrir þjónustuþega og starfsfólk, hvernig landbúnaður, veitingastaðir og matvörubúðir er hugsuð í skipulagi og hvernig borgin getur almennt orðið hvati og hreyfiafl til betri og sjálfbærari meðhöndlunar á mat.

Það eru grundvallarmannréttindi að hafa aðgengi að heilsusamlegum og öruggum mat til að nærast og geta lifað við bestu mögulegu heilsu. Borgarstjórn Reykjavíkur sér það sem sitt hlutverk að stuðla að því að allir íbúar borgarinnar hafi möguleika á að tileinka sér heilsusamlegan lífsstíl og þar með að borða hollan mat. Við teljum einnig mikilvægt að framboð sé á vistvænum mat sem er framleiddur með þeim hætti að komið er fram af virðingu við bæði landið og fólkið sem kemur að framleiðslu hans.

Reykjavíkurborg lítur á þessa fyrstu matarstefnu sem upphaf að framtíðarvinnu og býður fyrirtækjum, skólum, hvers kyns félagasamtökum og íbúum öllum að taka þátt í að móta matarmenningu Reykjavíkur til framtíðar.“

Sjá matarstefnu Reykjavíkurborgar 2018-2020.