Borgarstjórn samþykkir aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi

Fjármál Stjórnsýsla

""

Borgarstjórn samþykkti samhljóða á fundi sínum í dag tillögu um aðgerðir til að bregðast við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi í starfsumhverfi Reykjavíkurborgar.  

Borgarstjórn samþykkti samhljóða á fundi sínum í dag að fela forsætisnefnd og ofbeldisvarnarnefnd að gera tillögur að aðgerðum til að bregðast við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi í starfsumhverfi Reykjavíkurborgar í  tengslum við vitundarvakningu í samfélaginu vegna  samfélagsmiðlabyltingarinnar #metoo og #ískuggavaldsins

Þá er lagt til að umfang vandans verði metið, að siðareglur kjörinna fulltrúa og starfsmanna Reykjavíkurborgar verði yfirfarnar ásamt samþykktri stefnumörkun, verklagsreglum og viðbragðsáætlunum og að gerðar verði tillögur til úrbóta þar sem þess er þörf.

Samráð skal haft við mannauðsdeild ráðhússins, hagsmunaaðila og önnur fyrirtæki og stofnanir borgarinnar sem kunna að skipta máli. Gert er ráð fyrir að nefndirnar skili borgarstjórn tillögu að aðgerðar-, tíma-, og kostnaðaráætlun fyrir 1. febrúar 2018.

Borgarstjórn samþykkir jafnframt að fela mannauðsdeild ráðhússins að standa fyrir opnum fundi um kynbundna og kynferðislega áreitni.