Borgarstjórn minnist Birgis Ísleifs Gunnarssonar

Stjórnsýsla

""

Birgir Ísleifur Gunnarsson, fyrrverandi borgarstjóri, alþingismaður, ráðherra og Seðlabankastjóri, lést aðfaranótt mánudagsins 28. október sl. á líknardeild Landspítalans í Kópavogi. Hann var 83 ára gamall.

Birgir Ísleifur Gunnarsson var fæddur í Reykjavík 19. júlí 1936. Foreldrar hans voru Jórunn Ísleifsdóttir húsmóðir og Gunnar Espólín Benediktsson hæstaréttarlögmaður. Birgir lauk stúdentsprófi við Menntaskólann í Reykjavík 1955 og lagaprófi frá Háskóla Íslands 1961, varð héraðsdómslögmaður ári síðar og hæstaréttarlögmaður 1967.

Í sveitarstjórnarkosningunum 1962 var Birgir kjörinn í borgarstjórn Reykjavíkur, aðeins 25 ára gamall.

Pawel Bartoszek forseti borgarstjórnar minntist Birgis Ísleifs og rakti feril hans í borgarmálunum í  upphafi borgarstjórnarfundar síðastliðinn þriðjudag, 5. nóvember.

Birgir sat í borgarráði frá 1962-1980 auk þess að sitja í ýmsum nefndum borgarinnar, m.a. skipulagsnefnd, heilbrigðismálanefnd og hafnarstjórn.

„Árin 1972-1978 var Birgir borgarstjóri í Reykjavík og var hann vinsæll og vel látinn meðal borgarbúa. Árið 1979 var Birgir kjörinn á þing fyrir Reykvíkinga og sat þar til 1991. Hann gegndi ýmsum mikilvægum störfum á þeim vettvangi, m.a. sem menntamálaráðherra frá 1987-1988. Árið 1991 tók hann við embætti Seðlabankastjóra, sem hann gegndi til ársins 2005.

Nær alla starfsævi sína, frá ungum aldri, tók Birgir Ísleifur Gunnarsson mikinn þátt í stjórnmálastarfi og var hann jafnan valinn til forystustarfa meðal stúdenta, ungra Sjálfstæðismanna, í borgarstjórn og á Alþingi. Í Seðlabankanum átti hann einnig farsælan feril.

Fyrir hönd borgarstjórnar sendi ég fjölskyldu og vinum Birgis innilegar samúðarkveðjur og þakka fyrir framlag hans í þágu borgarinnar og okkar allra,“ sagði Pawel Bartoszek forseti borgarstjórnar og bað því næst borgarstjórn að minnast Birgis Ísleifs með því að rísa úr sætum.

Útför Birgis Ísleifs fer fram frá Hallgrímskirkju í dag.