Borgarstjóri setur söfnunarátak ABC barnahjálpar

Velferð Mannlíf

""

Jón Gnarr borgarstjóri setti árlegt söfnunarátak ABC barnahjálpar Börn hjálpa börnum í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun. Söfnunin er nú haldin í 17. sinn og að þessu sinni verður safnað fyrir nýrri heimavist stúlkna við heimavistarskólann í Machike í Pakistan. 

Jón Gnarr hóf söfnunina með hvatningarræðu og framlögum í fyrstu baukana er hann tók á móti 46 nemendum úr 5. bekk Langholtsskóla. Nemendurnir eru fulltrúar þúsunda barna sem ganga í hús um land allt og safna framlögum í merkta ABC bauka næstu þrjár vikurnar. Endilega takið vel á móti börnunum.
 
Liðsmenn Pollapönks mættu líka og tóku lagið með nemendum. Með laginu sínu Enga fordóma vilja þeir ásamt ABC barnahjálp vekja athygli á að enn eru víða fordómar gegn menntun stúlkna en söfnunin stuðlar á beinan hátt að auknu aðgengi stúlkna að menntun.
 
Utanríkisráðuneyti Íslands hefur lagt 17,7 milljónir til byggingarinnar og er markmiðið að safna fyrir mótframlagi ABC og ljúka byggingunni með þessari söfnun.
 
Ef meira safnast verður mismunurinn notaður til að ljúka nýrri skólabyggingu á sama stað sem byrjað er að nota fyrir skólastarf þrátt fyrir að hún sé rétt fokheld.
 
Um 250 stúlkur og jafnmargir drengir stunda nám í heimavistarskólanum í Machike en alls starfrækir ABC barnahjálp nú 13 skóla í Pakistan með um 3000 nemendur. Skólarnir hafa allir verið byggðir eða settir á fót fyrir íslenskt fé og eiga margir nemendur þeirra íslenska stuðningsforeldra.
 
Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á söfnunarreikninginn nr: 515-14-110000, kt.690688-1589.