Borgarstjóri fjallar um CarbFix í Madríd

Stjórnsýsla Umhverfi

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í pallborði á Loftslagsráðstefnunni í Madríd

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fjallaði um CarbFix verkefni Orkuveitu Reykjavíkur á Loftslagsráðstefnunni í Madríd.

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP25 fer fram þessa dagana í Madríd á Spáni. Degi B. Eggertssyni borgarstjóra var boðið að halda erindi á vettvangi ráðstefnunnar um nýsköpun og loftslagsmál í borgum.

Umfjöllun borgarstjóra CarbFix, sem er verkefni á vegum Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem gróðurhúsalofttegundum er breytt í grjót vakti umtalsverða athygli.

CarbFix-verkefnið felur í sér að gróðurhúsalofttegundir, koldíoxíð og brennisteinsvetni, eru leystar upp í vatni og þeim dælt ofan í jörðina á umtalsvert dýpi þar sem þær bindast basaltberglögunum við Hellisheiðarvirkjun og verða að steini. Verkefnið sem fékk íslenska heitið Gas í grjót hefur fengið háa styrki frá Evrópusambandinu. Nýlega hófst ferli um stofnun sérstaks dótturfélags Orkuveitunnar um verkefnið m.a. til þess að efla umgjörð þess og kanna möguleika á að fleiri geti nýtt sér þessa byltingarkenndu aðferð

Í máli borgarstjóra kom fram að verkefnið væri gríðarlega áhugavert og veki góðar vonir varðandi nýjar leiðir við kolefnisbindingu. „Það er magnað að sjá hversu stuttan tíma það tekur fyrir þessi efnasambönd að verða að grjóti og þessu viljum við miðla til þjóða heimsins. Sú hlið málsins hefur þegar ratað á forsíður virtustu vísindatímarita í heimi. Jarðlög í heiminum eru ekki öll eins en það geta verið mörg tækifæri í öllum heimsálfum fyrir þessa kolefnisbindingu. Eins hefur það sýnt sig að hún er tiltölulega ódýr miðað við sambærileg verkefni. Það hlýtur líka að vera sérstakt tækifæri að fullkanna hvort fanga megi gríðarlegan útblástur stóriðju og annars iðnaðar og er slíkt samstarf þegar hafið. Ef tilraunaverkefni OR og svissneska fyrirtækisins Climeworks gengur vel er einnig hægt að safna gróðurhúsalofttegundum úr andrúmslofti sem myndi vitanlega líka skipta máli,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

 

Meðal þeirra sem fram komu á fundinum voru Mary Robinson, fyrrverandi forseti Írlands, og Hoesung Lee formaður milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCCC)