Borgarlínan mun létta á umferðinni

Samgöngur Umhverfi

""

Borgarlínan, hágæðakerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu átti senuna á málþinginu Léttum á umferðinni, sem haldið var í Ráðhúsinu í morgun. Þrír fyrirlestrar tengdust Borgarlínunni sérstaklega og borgarstjóri skerpti á mikilvægi hennar í opnunarávarpi sínu. „Við erum með skýra áherslu á almenningssamgöngur,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Borgarlínan væri hryggjarstykkið í almenningssamgöngum og samstaða væri meðal þátttakenda í verkefninu, sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, ríkisins og Vegagerðarinnar um að hefja hönnun og undirbúning framkvæmda að Borgarlínu.

Bryndís Friðriksdóttir hjá Vegagerðinni sagði frá undirbúningi og fyrstu áföngum við Borgarlínu. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við fyrsta áfanga Borgarlínu verði komnar á fullt skrið árið 2021, en það er 13 km leið með tengingu við mikilvægar skiptistöðvar.  Bryndís sagði mikilvægt að láta Strætó og Borgarlínu myndu vinna vel saman og það samstarf væri þegar hafið.

Sigríður Magnúsdóttir arkitekt hjá Tröð greindi frá hugmyndum um þróun Vogabyggðar og Sæbrautar en erindi hennar hét Borgarþróun með Borgarlínu. Sigríður lagði áherslu á að borgarþróun væri loftslagsmál og að nauðsynlegt væri að endurhugsa áherslur. 

Hugmyndir eru að Borgarlína komi eftir Suðurlandsbraut og þaðan upp á Ártúnshöfða. Við Vogabyggð yrði skiptistöð.   Sigríður var með margar skýringarmyndir í sinni kynningu og sýndi að lokum videó af hugmyndunum.

Samúel T. Pétursson hjá VSÓ Ráðgjöf sagði frá hugmyndum um þróun Kringlusvæðisins með Miklubraut í stokk og Borgarlínu. Hann rakti hvernig þróunin hefur verið og hvaða hugmyndir hafa verið uppi í gegnum tíðina. Nýtt rammaskipulag fyrir Kringlusvæðið var samþykkt í borgarráði sumarið 2018 og í framhaldi voru nýverið gerð frumdrög að Miklubraut í stokk og Borgarlínu frá Snorrabraut að Kringlunni, sem Samúel kynnti með myndrænum hætti.

Umferðaröryggisáætlun, göngugötur og Micromobility              

Höskuldur Kröyer hjá Trafkon sagði frá markmiðum og áherslum í nýrri heildarsýn í umferðaröryggismálum í Reykjavík. Skoðuð hafa verið slysagögn frá liðnum árum til að draga saman hvar aðgerða er þörf.

Jökull Sólberg Auðunsson ráðgjafi fjallaði um hugmyndir um deilirafhjól og aðrar samgöngulausnir í Reykjavík. Erindi hans hét Micromobility: Lítil tæki fyrir stuttar ferðir.  Jökull benti á þá staðreynd að meirihluti bílferða væri styttri en 10 km og að nærri 90% bílferða væru aðeins með einum farþega.

Þá sagði Edda Ívarsdóttir borgarhönnuður  frá tilgangi og hugmyndafræði göngugatna í borgum. Þær væru fjárfesting til framtíðar, bættu loft- og lífsgæði. Borgir sem hannaðar væru fyrir fólk löðuðu fólk til sín og væri mikilvægt innlegg til vitundarvakningar um loftslagsmál.

Allar kynningar eru aðgengilegar á vefsíðu viðburðarins – Léttum á umferðinni – Málþing 2019