Borgarhakkið haldið í annað sinn

Atvinnumál

""

Borgarhakk Snjallborgarinnar fer fram í annað skipti nú um helgina 11.–12. október í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Um er að ræða svokallað hakkaþon, eða hugmyndaverkefnastofu, þar sem þátttakendum gefst færi á að vinna að skapandi hugmyndum undir leiðsögn sérfræðinga. Verkefnavinnan sjálf fer fram í teymum, og að henni lokinni kynna keppendur hugmyndirnar stuttlega fyrir dómnefnd sem velur bestu lausnina. Sigurliðið hlýtur eina milljón í verðlaun, en auk þess munu þátttakendur eiga möguleika á því að vinna rafhlaupahjól.

„Borgarhakkið er fyrir alla sem vilja gera Reykjavík að enn betri borg. Markmiðið er að skapa vettvang fyrir borgarbúa til að koma sínum hugmyndum á framfæri, með möguleika á áframhaldandi samstarfi við Reykjavíkurborg ef hugmyndirnar eru gagnlegar og vel útfærðar,“ segir Birta Svavarsdóttir, sérfræðingur hjá Snjallborginni, nýsköpunar- og þróunargátt Reykjavíkurborgar.

„Þátttakendur Borgarhakksins í fyrra hafa mörg hver gert frábæra hluti í kjölfarið. Þau hafa þróað hugmyndirnar sínar áfram, tekið þátt í viðskiptahröðlum og stofnað fyrirtæki, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta er það sem er svo mikilvægt við Borgarhakkið. Að hjálpa skapandi fólki sem vill gera flotta hluti fyrir borgina að mynda réttu tengslin og beina þeim áfram eins og við mögulega getum. Ef þú ert með spennandi hugmyndir um það hvernig megi bæta borgina þá viljum við endilega heyra meira frá þér og Borgarhakkið er einmitt vettvangurinn til þess. Sem dæmi um eftirtektarverða hugmynd sem spratt upp úr Borgarhakkinu er sorptæknilausn sem gengur út á að nýta gögn til að gefa forspárgildi um stöðu ruslastampa í borgarlandinu.“

En fyrir hverja er Borgarhakkið, er það bara fyrir forritara?

„Alls ekki, allir geta tekið þátt, óháð aldri og bakgrunni. Við gerum enga kröfu um bakgrunn í tækni- eða nýsköpunargeiranum. Það eina sem þarf er sköpunargleði og áhugi.“ 

Skráning í Borgarhakkið fer fram á heimasíðu Snjallborgarinnar og er opin til kl. 15, föstudaginn 11. október. Hakkaþonið sjálft hefst svo kl. 16, en allar nánari upplýsingar og dagskrá má finna á Facebook.

Dagskráin á facebook