Borgarhakk – Framtíð Reykjavíkur í þínum höndum

Umhverfi Mannlíf

""

Borgarhakk verður haldið í Ráðhúsinu dagana 27. og 28. apríl nk. Á Borgarhakki verður unnið með hugmyndir í verkefnastofu þar sem þátttakendur takast á við krefjandi áskoranir Reykjavíkurborgar og fá tækifæri til að koma með skapandi lausnir að framtíð borgarinnar undir leiðsögn sérfræðinga.

,,Við viljum hvetja fólk til að koma með hugmyndir að lausnum t.d. tengdum borgarlandinu, lýðheilsu, menntun, menningu, eða annarri þjónustu á vegum borgarinnar. Við viljum samstarf við borgarbúa og fá þeirra álit á því hvar framtíðar tækifæri Reykjavíkur liggja. Þátttakendur geta t.d. komið einhverju að sem þeir hafa rekist á erlendis og telja að eigi heima í Reykjavík. Hugmynd er ekki skilyrði fyrir þátttöku, heldur fá allir að vera með sem vilja og geta þá verið í hóp með öðrum sem eru annað hvort með ómótaðar hugmyndir eða lengra komnar. Að lokum kynna þátttakendur lausnir sínar stuttlega fyrir dómnefnd sem velur bestu lausnina," segir Kristinn Jón Ólafsson, forstöðumaður í nýsköpun innviða hjá Reykjavíkurborg.

Sigurliðið í Borgarhakkinu, sem kemur með bestu hugmyndina að mati dómnefndar, fær eina milljón króna í verðlaun. Viðburðurinn tengist Snjallborgarráðstefnu sem haldin verður í Hörpu 3. maí  þar sem kynnt verður nýsköpun í þágu samfélagsins, allt frá snjöllum ljósastaurum yfir í sjálfkeyrandi bíla.

,,Markmiðið er að efla Snjallborgina Reykjavík þannig að hún verði framsýnni, skilvirkari, öruggari, aðgengilegri, umhverfisvænni og ákjósanlegri staður til að búa á. Við köllum eftir fólki á öllum aldri með fjölbreytta reynslu og þekkingu sem hefur áhuga á því að skapa framtíð Reykjavíkur. Með því að mæta á Borgarhakk getur fólk tekið þátt í að móta borgina til framtíðar," segir Kristinn Jón.

#borgarhakk

Snjallborgin á Facebook