Borgarfulltrúar vinna að nýrri ferðamálastefnu

Mannlíf Menning og listir

""

Borgarfulltrúar héldu vinnufund í gær á Kjarvalstöðum vegna nýrrar ferðamálastefnu fyrir Reykjavíkurborg. 

Á fundinum var kallað eftir framtíðarsýn borgarfulltrúanna á áfangastaðnum Reykjavík og hvaða áherslur þeir vilja sjá í nýrri ferðamálastefnu. Stefnt er að því að ný ferðamálastefna fyrir borgina líti dagsins ljóst næsta vor, en núgildandi stefna tók gildi árið 2011.

 "Vinnufundurinn gekk mjög vel og var gaman að sjá hve samstíga borgarfulltrúar eru í þessari vinnu. Það er tímabært að hefja þessa vegferð enda hefur margt breyst í málaflokknum frá því núgildandi stefna tók gildi," sagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. 

Búið er að vinna greiningu á stöðu ferðamála í borginni í samstarfi við hagsmunaaðila og hófst fundurinn á kynningu á megin niðurstöðum þeirrar vinnu. Í kjölfarið var unnið í hópum undir leiðsögn ráðgjafa að því að draga fram framtíðarsýn, áherslur og meginmarkmið nýrrar ferðamálastefnu. 

Heildarábyrgð á stefnumótuninni er í höndum stýrihóps sem skipaður er af borgarráði en í honum sitja Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir og Hjálmar Sveinsson. Með hópnum vinnur starfsfólk Menningar- og ferðamálasviðs og ráðgjafar Capacent.

Framundan eru fleiri vinnufundir með hagsmunaaðilum, nágrannasveitarfélögum, starfsmönnum borgarinnar og fleirum.