Bókagjöf í stað jólatrés!

Skóli og frístund

""

Oslóarborg hefur í áratugi gefið Reykjvíkingum jólatré sem tákn um vináttu borganna og sameiginlegar hefðir og jólagleði. Nú er jólatréið fellt í Norðmannalundinum í Heiðmörk en það hefur ekki breytt neinu um vináttuna, því í stað jólatrés gefa borgaryfirvöld í Osló grunnskólanemum í Reykjavík bækur.

Í bókapakkanum frá borgarstjóranum í Ósló fylgir ósk um að ,,bækurnar sómi sér vel á skólabókasöfnum borgarinnar og að þær örvi lestrargleði barna og styrki tengsl höfuðborga Íslands og Noregs".

Fulltrúi norska sendiráðsins Silje Beite Løken afhenti fagurlega búna bókapakkana á fundi stjórnenda skólabókasafna í vikunni. Athöfnin fór fram í Grandaskóla og fékk sérhver grunnskóli í borginni, alls 36, einn bókapakka með bréfi frá borgarstjóra Óslóarborgar.

Þetta er annað árið í röð sem Óslóarbúar gefa reykvískum skólabörnum bækur um jólin og er þeim þakkað af heilhug fyrir vináttu og góðar gjafir.