Blöndum flandrið

Umhverfi Framkvæmdir

""

„Blandaðu flandrið“ eru hvatningarorð evrópskrar samgönguviku sem hefst á morgun, en með þeim er fólk hvatt til að velja, blanda og njóta þeirra samgöngumáta sem bjóðast. 

Á fyrsta degi samgönguviku, miðvikudaginn 16. september mun göngugötusvæði miðborgarinnar í fyrsta sinn ná alla leið frá gatnamótum Vatnsstígs að Aðalstræti eða alls um 800 metra. Í þrjár klukkustundir, milli kl. 11:00-14:00 munu ungir listamenn og leikskólabörn vinna saman að því að gera stórt krítarlistaverk í Bankastrætinu. Skemmtileg tónlist mun óma um svæðið og litagleði fær að ráða ríkjum.  Lokað verður fyrir umferð frá Þingholtsstræti og Skólastræti niður Bankastræti á meðan viðburðurinn stendur yfir.

Dagskrá samgönguviku er að finna á reykjavik.is/samgonguvika-2015

Samgönguviðurkenning og ný göngubrú

Á fimmtudag mun borgarstjóri opinbera hverjir hljóta Samgönguviðurkenningu Reykjavíkur, en hún er veitt í tveimur flokkum til þeirra sem stigið hafa mikilvæg skref í átt til vistvænni samgöngumáta. Umsóknir undanfarinna ára hafa að mati valnefndar sýnt mikinn metnað, fagmennsku og frumkvöðlahugsun. Viðurkenningin verður veitt í Ráðhúsi Reykjavíkur kl. 15.30

Síðar sama dag mun Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og fulltrúar íbúa í Norðlingaholti og Árbæ taka nýja göngu- og hjólabrú yfir Breiðholtsbraut formlega í notkun.  Athöfnin verður kl. 17.00 og eru allir velkomnir að njóta hins nýja mannvirkis.

Hjólum til framtíðar

Landssamtök hjólreiðamanna standa fyrir árvissri ráðstefnu í samgönguviku og verður hún haldin föstudaginn 18. september og að þessu sinni í Smárabíó í Smáralind kl. 9 – 16.  Yfirskrift ráðstefnunnar er Veljum, blöndum & njótum!

Þeir sem ekki láta sér nægja að tala um hjólreiðar geta daginn eftir mætt í fyrsta laugardagshjólatúr vetrarins. Í vetur verða farnar hjólreiðaferðir frá Hlemmi á laugardagsmorgnum. Lagt er af stað kl. 10.15.

Ókeypis í Strætó

Samgönguviku líkur 22. september með „bíllausa deginum“ þegar fólk er sérstaklega hvatt til að skoða aðra valkosti til samgangna en bílinn.  Ókeypis verður í Strætó þennan dag.
Á vegum Stjórnvísi verður boðið upp á morgunverðarfund um samfélagsábyrgð og samgöngusamninga, en þar verður sérstaklega horft til góðra fyrirmynda. Fundurinn verður haldinn hjá Advania í Guðrúnartúni 10, kl. 8.30 – 10.00

Síðar um daginn verður fjallað um almenningssamgöngur til framtíðar, en Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa fengið Jarrett Walker sérfræðing í almenningssamgöngukerfum til að halda fyrirlestur um þetta efni. Fyrirlesturinn verður haldinn í Salnum í Kópavogi kl. 15.00 – 16.30.


Tengt efni / Nánari upplýsingar: