Blönduð miðborgarbyggð á Héðinsreit

Skipulagsmál Framkvæmdir

""

Á Héðinsreit í Vesturbæ munu rísa um 300 íbúðir ásamt ýmis konar atvinnuhúsnæði og þjónustu samkvæmt nýju deiliskipulagi. 

Borgarráð hefur samþykkt að auglýsa nýja tillögu að deiliskipulagi fyrir Héðinsreit. Breytingin nær til byggingarreita, byggðamynsturs, lóðamarka, hæða húsa og starfsemi á jarðhæðum. 

Með nýju deiliskipulagi er mynduð þétt byggð umhverfis þrjá inngarða sem hver hefur sín séreinkenni. Húsin á reitnum verða mismunandi að gerð, hæð, formi, útliti og hönnun. Gönguleið opin almenningi verður á þremur stöðum um reitinn og tengir hann við nærumhverfið.

Áætlað er að fjöldi íbúða á Héðinsreit verði á bilinu 275-330. Miðað er við að hæðir húsa verði almennt fimm til sjö hæðir með verslunar- og þjónustustarfsemi á jarðhæð. Markmiðið er að efla fjölbreytta atvinnu- og þjónustustarfsemi sem fellur vel að íbúðarbyggð. Gert er ráð fyrir stofnunum og skrifstofum og sérhæfðri þjónustu.

Í tillögunni er gert fyrir góðu flæði gangandi vegfarenda í gegnum reitinn og eru inngarðarnir helgaðir þeim og hugsaði sem almenningsgarðar. Hugað er aðgengi fyrir alla, gangandi og hjólandi vegfarendur og fatlað fólk en að auki er hugsað fyrir aðgengi fyrir sjúkra og slökkvibíla. Bílastæði verða neðanjarðar á reitnum í bílakjöllurum.

Í skilmálum fyrir byggingarnar sem rísa munu á reitnum er lögð áhersla á að tryggja fjölbreytileika í hönnun og efnisvali þannig að hver bygging verði einstök í útliti. Lagt er upp með að götumyndin verði heildstæð þó svo að einstök hús haldi sínum sérkennum.

Staðsetning reitsins gerir það að verkum að áhrif á lagnakerfi borgarinnar verður óverulegt en til að minnka álag á fráveitukerfið eru valdar svokallaðar blágrænar ofanvatnslausnir sem þýðir að komið er fyrir ofanvatnstjörnum og opnum ofanvatnsrásum fyrir regnvatn, gróðurbeð og gegndræp yfirborð sem ýmist drena og hreinsa vatn út í jarðveginn og/eða út í fráveitukerfið.

Tvær mögulegar lausnir eru úrgangsmál og sorphirðu á reitnum; annað hvort verður sorpgámum komið fyrir á jarðhæðum bygginga eða í kjöllurum eða að djúpgámastöðvum verður komið fyrir nálægt götum þar sem aðgengi er gott fyrir sorphirðubíla. Leyfi er fyrir bílageymslu undir reitnum og er sameiginlegur inngangur að bílastæðum við Vesturgötu samkvæmt tillögunni.