Blómstrandi fjölmenningarstarf á Borgarbókasafninu

Menning og listir

""

Menningar- og menntastofnanir gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að skapa samtal í fjölbreyttu landslagi tungumála og menningar. Frá árinu 2008 hefur Borgarbókasafnið þróað öflugt fjölmenningarstarf sem byggir á þverfaglegu samstarfi við félög, stofnanir og einstaklinga, innanlands sem utan.

Fjöldi verkefna hefur orðið til á þessum árum sem einkennast öll af fjölbreyttu og skapandi starfi. Þar á meðal má nefna Söguhring kvenna, Café Lingua – lifandi tungumál, Krakkanám og Heimsálfa sem felst í sögustundum á mismunandi tungumálum. Fjölmörg Menningarmót hafa einnig verið haldin í skólum borgarinnar á vegum bókasafnsins.

Listin að fagna litrófi menningar og tungumála

Mikilvægur afrakstur fjölmenningarstarfsins er stefna menningar- og ferðamálasviðs um fjölbreytta menningu, eða „Rætur og vængir“ sem byggir meðal annars á reynslunni sem hefur orðið til á safninu. Í stefnunni er lögð áhersla á aðgengi og þátttöku og verða þessi tvö atriði einmitt aðaláhersla í starfi fjölmenningarteymis Borgarbókasafnsins á næsta misseri.

Að vera hluti af ríku menningarlífi er gott fyrir vellíðan og lætur fólki líða eins og það tilheyri samfélaginu sem það býr í. Þess vegna er mikilvægt að búa til vettvang þar sem hver og einn fær að blómstra við að miðla eigin reynslu, menningu og tungumáli í gegnum sköpun, samræður og samveru. Þetta er eitt mikilvægasta atriði í fjölmenningarstarfi Borgarbókasafnsins.

Allir eiga sér sína sögu hvaðan sem þeir koma og það er sameiginlegt verkefni okkar að flétta þessar sögur saman og búa til nýjar í sameiningu. Í starfinu er lögð áhersla á að fjölmenning sé eitthvað sem tengist öllum borgarbúum og að einstaklingar séu ekki alltaf settir í bás sem fulltrúar ákveðinna þjóða heldur fái að skilgreina sig út frá eigin forsendum.

Starf með vængi

Bókasöfn og aðrar menningarstofnanir eru miðstöðvar mannlífs og menningar og þess vegna augljós vettvangur fyrir starfsemi sem sameinar fólk og sögur þess. Til að ná markmiðunum á sviði fjölmenningar nær fjölmenningarstarf Borgarbókasafnsins langt út fyrir veggi þess og starfar safnið með alls konar fólki, félagasamtökum og stofnunum. Má þar nefna mennta- og menningarstofnanir, þjónustumiðstöðvar, grasrótarsamtök, listafólk og einstaklinga sem koma hvaðanæva af úr heiminum. 

Undanfarin ár hefur Borgarbókasafnið verið í nánu samstarfi við önnur Norðurlönd vegna samnorræna verkefninu „Inkluderende kulturliv i Norden“ og situr verkefnastjóri fjölmenningar safnsins, Kristín R. Vilhjálmsdóttir, fyrir hönd Íslands í hópnum Nordisk Forum for Interkultur sem er ráðgjafandi fyrir menningargeirann á Norðurlöndum þegar kemur að þátttöku og virkni í listum og menningu.

Verkefni safnsins hafa vakið athygli víða og verið miðluð ekki bara á öllum Norðurlöndum heldur einnig fyrir fjölda evrópska fagaðila á bæði mennta- og menningartengdum ráðstefnum erlendis og í mótttökum hérlendis.

Hér eru nokkur lifandi dæmi um verkefni innan fjölmenningarstarfsins: