Björgun flytur og Bryggjuhverfið stækkar | Reykjavíkurborg

Björgun flytur og Bryggjuhverfið stækkar

föstudagur, 18. ágúst 2017

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Lárus Dagur Pálsson framkvæmdastjóri Björgunar  skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu þess efnis að Björgun flytji athafnasvæði sitt í Gunnunes sem er á sunnanverðu Álfsnesi. Vilyrði fyrir lóð er í samræmi við samþykkt borgarráðs.

  • Skrifað undir viljayfirlýsingu um athafnasvæði Björgunar
    Skrifað undir viljayfirlýsingu um athafnasvæði Björgunar
  • Skrifað undir viljayfirlýsingu um athafnasvæði Björgunar
    Skrifað undir viljayfirlýsingu um athafnasvæði Björgunar

Vinna við breytingar á skipulagi er þegar hafin og hefur ráðgjafafyrirtækinu Alta verið falin umsjón með verkinu. Umhverfismat er forsenda breytinga á skipulagi og m.a. verður gerð könnun á gróðurfari og dýralífi á svæðinu. Þá verða landkostir metnir út frá útivist, sjónrænni röskun, mati á menningarminjum og mögulegri mengun eða truflun í nágrenni svæðisins.  Fjölmenn íbúðahverfi eru nokkuð langt undan og því sjónræn áhrif mest á nesinu sjálfu. Lítið er um að svæðið sé nýtt til útivistar.  Gert er ráð fyrir umtalsverðum framkvæmdum í Gunnunesi eins og gatnagerð og annarri uppbyggingu innviða í framhaldi af breyttu skipulagi.

Björgun er framleiðandi steinefna til mannvirkjagerðar á Reykjavíkursvæðinu. Fyrirtækið nær í hráefni úr námum á hafsbotni með uppdælingu sem hefur til þessa verið flutt til frekari vinnslu á athafnasvæði félagsins vestan Bryggjuhverfisins við Ártúnshöfða, þar sem fyrirtækið hefur verið síðustu áratugina. Fyrirtækið hefur  dregið  úr starfsemi sinni á svæðinu og flytur i í síðasta lagi fyrir lok maí árið 2019. Stærsta verkefni Björgunar á Sævarhöfðanum sem hefst innan skamms er gerð fyrsta áfanga landfyllingar við Elliðavoginn sem felur jafnframt í sér endanleg skil lóðarinnar og mikilvægan undirbúning fyrir uppbyggingu svæðisins.   Einnig  er fyrirhugað hreinsunarstarf sem  felst í að fjarlægja fínefni sem runnið hafa í sjó næst núverandi lóðamörkum í Elliðavognum. 

Íbúabyggð við Elliðaárvoginn

Á athafnasvæði Björgunar við Elliðaárvoginn kemur næsti áfangi Bryggjuhverfis og hyllir undir lok deiliskipulagsvinnu. Eftir lögbundið kynningarferli verður mögulegt að bjóða lóðir til sölu og uppbyggingar.

Stækkun bryggjuhverfisins tengist niðurstöðu hugmyndasamkeppni um að breyta Ártúnshöfða í blandaða byggð íbúða og atvinnuhúsnæðis, auk þess að stækka hverfið með landfyllingum til norðurs út í Elliðaárvoginn.  Nánari upplýsingar um uppbyggingu og breytingar á landnýtingu Ártúnshöfða og Elliðaárvogs má sjá á upplýsingasíðu á vef Reykjavíkurborgar:  Ártúnshöfði - uppbygging hverfis